Fótbolti

Saga Kára DJ Árnasonar: „Ég var búaður af sviði eftir tvö lög“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kári Árnason hefur húmor fyrir sjálfum sér.
Kári Árnason hefur húmor fyrir sjálfum sér. Vísir/Valli
Miðvörðurinn Kári Árnason hikar ekki við að fara ótroðnar slóðir ef svo ber undir. Eitt besta dæmið um það er ball í Fossvogsskóla fyrir heilum 22 árum. Kári segist hafa litið töluvert til bróður síns Daða þegar kom að tónlist til að hlusta á. Hann hafi hlustað á það sem Daði hlustaði á sem á þeim tíma var bandaríska rokkhljómsveitin Pearl Jam.

„Það var ekki í tísku hjá mínum aldurshópi að hlusta á hana,“ segir Kári hlæjandi beðinn um að rifja upp söguna sem Andri Tómas Gunnarssson, vinur Kára, sagði Dodda litla á Rás 2 á dögunum. Þannig var að Kári hafði tekið að sér að vera plötusnúður á balli í Fossvogsskóla í tólf ára bekk.

„Ég hélt ég væri rosalegur gæi, ætlaði að gerast DJ tólf ára gamall,“ segir Kári. „Ég vissi ekki að það þyrfti að undirbúa sig,“ segir miðvörðurinn sem fór að grúska í plötusafninu en leitaði svo til bróður síns. Skilaboðin voru skír. Hann ætti að hætta að gramsa í plötunum og taka bara tvo Pearl Jam geisladiska. Þetta myndi reddast.

„Það er ekkert partý án Pearl Jam,“ hefur Kári eftir bróður sínum og hélt vígreifur á ballið með diskana tvo. 

„Það endaði ekki vel fyrir mig. Ég var búaður af sviði eftir tvö lög.“

Kári hefur augljóslega húmor fyrir sjálfum sér og misheppnaðri byrjun á ferlinum sem plötusnúður. Staðan er hins vegar enn svipuð. Hann fær ekki að koma nálægt tónlistarvalinu í klefanum hjá landsliðinu. Þar fái yngri leikmennirnir að ráða för.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á FacebookTwitter og Snapchat (sport365).
 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×