Skoðun

Hvernig eyja getur verið áttavillt

Kári Stefánsson skrifar
Það er í sjálfu sér óeðlilegt að reikna með því þegar tveir menn skrifa um sama efni að út úr því komi ekki tvenns konar texti og fleiri en einn skilningur. Það er hins vegar alltaf svolítið erfitt fyrir þann sem skrifar þegar menn lesa út úr textanum hans eitthvað allt annað en hann ætlaði að segja. Það er þó oftast á ábyrgð þess sem skrifar þótt það sé að öllum líkindum ekki alltaf. Til dæmis er ekki líklegt að það sé á mína ábyrgð þegar skríbent Eyjunnar les grein mína í Fréttablaðinu í morgun sem sérstaka árás á vinstrimenn vegna þess að hún er það alls ekki.

Gagnrýni

Greinin er gagnrýni á það hvernig íslenskir stjórnmálamenn hafa farið með velferðarkerfið þegar þeir hafa sest á valdastóla, án tillits til þess úr hvaða flokki þeir hafa komið, vinstrimenn þrátt fyrir yfirlýsta trú sína á mikilvægi velferðarkerfisins og hægrimenn þrátt fyrir að þeir hafi verið sparari á slíkar yfirlýsingar.

Aðferðirnar tvær sem Eyjan notar til þess að telja lesendum sínum trú um að greinin mín sé sérstök árás á vinstrimenn er annars vegar að birta orðrétta kapítula úr samhengi þar sem hallar á vinstrimenn en sleppa því sem sagt er um þá sem eru hægra megin við þá og hins vegar með fyrirsögn sem lítur svona út: Kári fer mikinn og gagnrýnir vinstrimenn harðlega: „Vitagagnslaust drasl.“

Lágkúra

Þarna gefur Björn Ingi það í skyn að ég hafi sagt að vinstrimenn væru vitagagnslaust drasl þegar staðreyndin er sú að ég sagði að pólitískar hugmyndafræðir væru vitagagnslaust drasl þeim sem setjast í valdastóla. Með fyrirsögninni er hann bókstaflega að ljúga upp á mig. Það hlýtur að teljast lágkúrulegt.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×