Íslenski boltinn

Höddi Magg um ákvörðun Óla Jóh: "Er enn þá árið 1985?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen, sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, var í fyrsta sinn í byrjunarliði í efstu deild í gærkvöldi þegar Ólafur Jóhannesson valdi strákinn unga og efnilega fram yfir tvo danska atvinnumenn í stórleik 19. umferðar Pepsi-deildarinnar gegn Breiðabliki í gærkvöldi.

Sveinn Aron átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en fékk gott færi eftir laglegan einleik snemma í þeim síðari og var hársbreidd frá því að skora sitt fyrsta mark. Fyrir leikinn í gær var hann þrisvar sinnum búinn að koma inn á síðan hann gekk í raðir Vals í sumarglugganum.

„Mér fannst hann standa sig alveg ágætlega. Hann var svolítið týndur í fyrri hálfleik en þarna sýnir hann frábær tilþrif,“ sagði Hjörtur Hjartarson, sérfræðingur Pepsi-markanna, um Svein Aron og færið hans.

Eftir leikinn sóttist Stöð 2 Sport, eins og allir aðrir fjölmiðlar á leiknum, eftir því að fá viðtal við Svein Aron en Ólafur Jóhannesson, þjálfari liðsins, tók fyrir það eins og Vísir greindi frá í gærkvöldi.

„Okkur langaði að tala við Svein Aron eftir leik en Óli Jóh bannaði okkur að tala við hann. Ég meina, Óli er búinn að vera landsliðsþjálfari og svona, það er ekki enn þá árið 1985, er það? Af hverju má hann ekki koma í viðtal?“ sagði Hörður Magnússon, umsjónarmaður Pepsi-markanna.

„Þarf að passa svona upp á leikmenn?“ sagði Hjörtur og Hjörvar Hafliðason skildi ekki alveg ákvörðunina. „Ég held að Óli þurfi að svara því. Sveinn er mjög klár drengur.“

Hörður Magnússon hafði lítinn húmor fyrir þessari ákvörðun síns gamla þjálfara og spurði: „Finnst ykkur þetta ekki hallærislegt?“

„Jú, þetta er það. Við sáum að KR-ingarnir gerðu þetta á síðustu leiktíð þegar þeir drógu Gary Martin í burtu en Sveinn er mjög skýr strákur og ég held að hann hefði ekki sagt neina vitleysu og komist vel frá sínu. Það er gaman þegar ungir leikmenn fá tækifæri,“ sagði Hjörvar Hafliðason.

Besta færi Sveins Arons í leiknum og umræðuna um viðtalsbannið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×