Körfubolti

Þrumuskotin sem gerðu Birnu að leikmanni umferðarinnar í Meistaradeildinni | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir eftir landsleik í Laugardalshöllinni.
Birna Berg Haraldsdóttir eftir landsleik í Laugardalshöllinni. Vísir/Ernir
Birna Berg Haraldsdóttir var kosin leikmaður annarrar umferðar Meistaradeildar kvenna í handbolta eftir frábæra frammistöðu sína um síðustu helgi.

Birna Berg skoraði þá 11 af 23 mörkum norska liðsins Glassverket á móti stórliði Buducnost. Leikurinn tapaðist en Birna var engu að síður kosin leikmaður umferðarinnar hjá Meistaradeildinni. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk handknattleikskona fær þessa flottu viðurkenningu.

Birna Berg er 23 ára gömul örvhent skytta sem hefur spilað stærsta hluta atvinnumannaferils síns í Svíþjóð þangað sem hún fór frá Fram sumarið 2013.

Íslenska stórskyttan er að stimpla sig vel inn á nýjum stað en hún skipti yfir í norska liðið fyrir þetta tímabil. Birna Berg hefur verið óheppin með meiðsli á síðustu árum en það er ljóst að skothöndin er enn í fínu lagi hjá okkar stelpu.

Birna Berg hefur nú skorað fimmtán mörk í tveimur fyrstu umferðum Meistaradeildarinnar og er í hópi markahæstu leikmanna hennar.

Twitter-síða EHF Champions League birti flott myndband með tilþrifum Birnu úr leiknum og er það aðgengilegt hér fyrir neðan.

Birna Berg skoraði flest mörkin sín með sannkölluðum þrumuskotum og það er óhætt að segja að neglurnar hennar hafi fært henni titilinn leikmaður umferðarinnar í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×