Tæknirisinn Apple opinberaði nýtt stýrikerfi á mánudaginn sem heitir macOS Sierra 10.12.1. Með tilkynningunni um stýrikerfið nýja fylgdi þó fyrir slysni myndir af nýrri MacBook Pro fartölvu sem kynna á á morgun. Á myndunum má sjá að OLED snertiskjár liggur yfir lyklaborðinu þar sem F-takkarnir ættur að vera.
Þá virðist sem að Escape takkinn sé ekki á lyklaborðinu, né takkinn til að kveikja og slökkva á tölvunni.
Starfsmenn Macrumors.com fundu myndirnar og birtu áður en þeim var kippt út.
Snertiskjárinn er talinn ganga undir nafninu Magic Toolbar og samkvæmt macrumors breytist hann eftir því hvað er á skjánum hjá notendum. Þar að auki er fingrafaraskanni á skjánum, eins og sjá má hér að ofan þar sem notandi er beðinn um að staðfesta kaup með fingrafari sínu.

