Handbolti

Þórir verður án eins síns besta leikmanns á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heidi Löke í leik á Ólympíuleikunum í Ríó.
Heidi Löke í leik á Ólympíuleikunum í Ríó. vísir/getty
Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta, bíður erfitt verkefni að fylla skarð línumannsins öfluga, Heidi Löke.

Hin 33 ára gamla Löke er með barni og getur því ekki leikið með norska liðinu á EM í Svíþjóð í desember. Barnið er væntanlegt í heiminn í júní á næsta ári. Þetta er annað barn Löke en hún á fyrir níu ára gamlan son.

Noregur er ríkjandi heims- og Evrópumeistari en norska liðið hefur átt mikilli velgengni að fagna á undanförnum árum.

Löke hefur átt stóran þátt í frábæru gengi norska liðsins en hún hefur verið í hópi bestu leikmanna heims undanfarin ár. Hún var valin besti leikmaður heims árið 2011 af IHF, Alþjóðahandknattleikssambandinu.

„Við í þjálfarateyminu erum ánægð fyrir hönd Heidi og hennar fjölskyldu og óskum þeim alls hins besta,“ er haft eftir Þóri í yfirlýsingu á heimasíðu norska handknattleikssambandsins.

„Það er aðeins ein Heidi og hún hefur verið í lykilhlutverki í landsliðinu frá 2008. Þetta verður öðruvísi án hennar.“

EM í Svíþjóð hefst 4. desember og lýkur með úrslitaleik átjánda sama mánaðar. Noregur er með Rússlandi, Rúmeníu og Króatíu í riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×