Handbolti

Íslandsvinurinn Mamelund varð eftir heima

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mamelund hefur mætt íslenska landsliðinu ótal sinnum á undanförnum árum.
Mamelund hefur mætt íslenska landsliðinu ótal sinnum á undanförnum árum. vísir/afp
Erlend Mamelund, fyrrverandi leikmaður Kiel og norska landsliðsins, verður ekki með norska liðinu Haslum þegar það mætir Val á Hlíðarenda í 32-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu á morgun.

Mamelund er meiddur á olnboga og varð eftir í Noregi.

Hinn 32 ára gamli Mamelund er langþekktasti leikmaður Haslum sem er að mestu skipað leikmönnum í yngri kantinum.

Mamelund hefur spilað með Haslum lengst af ferilsins. Hann hefur einnig leikið með Nordhorn, Flensburg og Kiel í Þýskalandi, danska liðinu FCK og Montpellier í Frakklandi.

Eftir eitt tímabil hjá síðastnefnda liðinu sneri Mamelund svo aftur til Haslum 2013. Í fyrra hóaði Alfreð Gíslason svo óvænt í Mamelund og fékk hann til Kiel. Þar lék hann í eitt tímabil áður en hann fór aftur heim. Mamelund hefur gefið það út að þetta tímabil verði hans síðasta á ferlinum.

Mamelund lék vel yfir 100 landsleiki fyrir Noreg á árunum 2005-16. Hann mætti íslenska landsliðinu á EM 2010, 2012, 2014 og 2016 og HM 2011. Í öll skiptin höfðu Íslendingar betur.

Leikur Vals og Haslum hefst klukkan 16:00 á morgun. Seinni leikurinn fer fram í Noregi laugardaginn 26. nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×