Handbolti

Alfreð gat brosað eftir dramatískan endi í derby-leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Vísir/Getty
Alfreð Gíslason og lærisveinar eru komnir á toppinn í þýsku úrvalsdeildinni eftir eins marks sigur á Flensburg-Handewitt í toppslag í dag.

Kiel vann nágranna sína 24-23 en Flensburg-liðið var fyrir leikinn búið að vinna alla níu leiki sína á tímabilinu.

Þýski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Wolff var hetja Kiel í dag. Wolff varði víti Danans Anders Eggert á lokasekúndu leiksins og tryggði Kiel sigur.

Kiel lenti fimm mörkum undir í fyrri hálfleik og var þremur mörkum undir í hálfleik, 14-11. Alfreð tók til hjá sínum mönnum í hálfleik og það var allt annað að sjá til liðsins eftir hlé. Fjögur mörk í röð skiluðu liðinu 16-15 forystu og eftir það var Kiel með frumkvæðið í leiknum.

Kiel er nú með 20 stig efir ellefu leiki en liðið var að vinna sinn níunda leik í röð í dag. Kiel hoppaði ekki bara upp fyrir Flensburg (18 stig) heldur tók einnig toppsætið af Füchse Berlin (19 stig).

Króatinn Domagoj Duvnjak var markahæstur hjá Kiel með sex mörk en þeir Patrick Wiencek og Niclas Ekberg skoruðu báðir fimm mörk.

Danirinir Anders Eggert og Thomas Mogensen voru markahæstir hjá Flensburg með fimm mörk hvor en Eggert nýtti bara 3 af 5 vítum sínum sem er afar óvenjulegt hjá þessari frábæru vítaskyttu.

Kiel gekk svo sem ekkert betur á vítalínunni því  Marko Vujin og Raúl Santos klikkuðu á vítaskotum Kiel í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×