Fótbolti

Aron Einar: Vissum að þeir væru fljótir að refsa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland tapaði fyrir Króatíu, 2-0, í undankeppni HM 2018 í kvöld en leikurinn fór fram í Zagreb. Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, var skiljanlega svekktur í viðtali við Vísi eftir leik.

„Mér fannst við vera með þá, þannig séð. Þetta var bara svekkjandi. Það er ekki margt við þessu að segja þannig séð,“ sagði Aron Einar.

„Við nýttum ekki færin. Ég talaði um það fyrir leik að þessir kallar væru fljótir að refsa og þeir gerðu það í kvöld. Þeir refsuðu okkur.“

„Kannski að reynslan hafi spilað inn í. Við þurfum að loka svona leikjum þegar tækifæri til þess gefst. Við gerðum svo sem ekki mikið í seinni hálfleik heldur og er það svekkjandi.“

Hann segir að Ísland hafi verið með plan í leiknum sem liðið hélt sig við þar til á 85. mínútu.

„Þá ýttum við þeim aðeins ofar og þá fáum við markið á okkur. Það er eins og gengur og gerist þegar maður tekur áhættu.“

Ísland tapaði með sama mun, 2-0, þegar þessi sömu lið mættust á sama velli fyrir þremur árum síðan. Þá var leikurinn úrslitaleikur um sæti í úrslitakeppni HM 2014.

„Við eigum ekki góðar minningar héðan. En við þurfum að nýta okkur þetta tap eins og við gerðum síðast. Það þýðir ekkert að vera of neikvæður þó svo að maður leyfir sér að vera svekktur í tíu mínútur eftir leik.“

„Við munum nú fara vel yfir þennan leik og taka það jákvæða úr honum. Það mikilvægasta sem við gerum er að læra og halda áfram að bæta okkur.“


Tengdar fréttir

Ragnar: Finnst Mandzukic ekki geta neitt

"Mér fannst við ekki beint lélegir í seinn hálfleik en sá fyrri var betri,“ sagði Ragnar Sigurðsson miðvörður Íslands um tapið gegn Króatíu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×