Fótbolti

Newcastle-maðurinn tryggði Serbum stig í Cardiff

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aleksandar Mitrovic skorar jöfnunarmark Serba.
Aleksandar Mitrovic skorar jöfnunarmark Serba. Vísir/Getty
Aleksandar Mitrovic, leikmaður Newcastle United, tryggði Serbum mikilvægt stig gegn Walesverjum þegar hann jafnaði metin í 1-1 þegar fjórar mínútur voru eftir af leik liðanna í Cardiff í kvöld.

Gareth Bale kom Wales yfir með skoti fyrir utan vítateig á 30. mínútu. Það var eina mark fyrri hálfleiks.

Á 85. mínútu var Bale svo hársbreidd frá því að koma Wales í 2-0 en skaut í stöng úr fínu færi.

Nánast í næstu sókn jafnaði Mitrovic metin þegar hann skallaði fyrirgjöf Antonios Rukavina í stöngina, Wayne Hennesey, markvörð Wales, og inn.

Walesverjar gráta væntanlega tvö töpuð stig en þeir hafa gert jafntefli í síðustu þremur leikjum sínum í D-riðli í undankeppni HM 2018.

Wales er í 3. sæti riðilsins með sex stig en Serbía er í 2. sætinu með átta stig.

Írar, sem unnu Austurríkismenn á útivelli fyrr í dag, eru á toppnum með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×