Fótbolti

Farið fram á tveggja ára fangelsi yfir Neymar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neymar í leik með Barcelona.
Neymar í leik með Barcelona. vísir/getty
Saksóknari á Spáni hefur farið fram á að brasilíski sóknarmaðurinn Neymar verði dæmdur í tveggja ára fangelsi vegna óeðlilegra viðskiptahátta í tengslum við félagaskipti hans til Barcelona.

Fyrr í þessum mánuði féllst dómari á að taka til umfjöllunar ákæru um spillingu í tengslum við félagaskiptin.

Neymar og aðilar honum tengdir eru sakaðir um að hafa skotið hluta þeirrar upphæðar sem Barcelona greiddi fyrir Neymar undan skatti.

Saksóknarinn í málinu hefur nú lagt fram þær kröfur að Neymar verði dæmdur í tveggja ára fangelsi og sektaður um tíu milljónir evra, jafnvirði 1,2 milljarða króna.

Saksóknari fer einnig fram á sömu refsingu fyrir föður Neymars og Sandro Rosell sem var forseti Barcelona þegar félagið keypti leikmanninn frá Santos árið 2014. Þá var einnig farið fram á þriggja ára fangelsisdóm fyrir Rosell.

Josep Bartomeu, núverandi forseti Barcelona.vísir/getty
Yfirvöld fara einnig fram á að Barcelona verði sektað um 8,4 milljónir evra en fallið var frá ákæru á Josep Maria Bartomeu, núverandi forseta félagsins.

Forsaga málsins er sú að fjárfestingafélagið DIS átti 40 prósenta hlut í félagaskiptarétti Neymar á sínum tíma. DIS kvartaði undan því að það hefði fengið minna í sinn hlut fyrir söluna á Neymar en félagið átti að fá vegna þess að hluta kaupverðsins var haldið leyndu fyrir félaginu.

Barcelona sagði á sínum tíma að kaupverðið hafi verið 57,1 milljón evra og að Santos hafi fengið 17,1 milljón í sinn hlut.

Saksóknari segir hins vegar að Santos hafi fengið meira í sinn hlut eða 25,1 milljón evra. DIS hefði því átt rétt á að fá 3,2 milljónum evra meira en félagið fékk.

Rosell sagði af sér vegna málsins á sínum tíma og bar vitni í dómssal vegna málsins, rétt eins og þeir Neymar-feðgar gerðu sem og Bartomeu.

Barcelona hefur áður viðurkennt mistök sín í málinu.


Tengdar fréttir

Vilja fá Neymar fyrir rétt

Ríkissaksóknaraembætti Spánar vill draga brasilísku fótboltastjörnuna Neymar fyrir rétt vegna meintra fjársvika.

Barcelona greiðir sekt vegna Neymar

Barcelona hefur samþykkt að greiða 965 milljónir króna í sekt út af skattamáli er tengdist kaupum félagsins á brasilíska landsliðsmanninum Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×