Handbolti

Tekst Þóri loks að vinna sigur á Rússum?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir hefur aldrei stýrt norska liðinu til sigurs á því rússneska í keppnisleik.
Þórir hefur aldrei stýrt norska liðinu til sigurs á því rússneska í keppnisleik. vísir/epa
Þrátt fyrir að hafa unnið allt sem hægt er að vinna sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta hefur Þórir Hergeirsson aldrei stýrt Noregi til sigurs á Rússlandi í keppnisleik.

Norðmenn og Rússar mætast í lokaumferð riðlakeppninnar á EM í Svíþjóð í kvöld.

Bæði lið eru búin að tryggja sér sæti í milliriðli en leikurinn skiptir samt miklu máli upp á hvað þau taka mörg stig með sér í milliriðil.

Með sigri á Rússum fer norska liðið með fjögur stig inn í milliriðil og er þar með í góðri stöðu til að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Noregur fer þó aldrei með minna en tvö stig inn í milliriðil þökk sé sigrum í fyrstu tveimur leikjunum í D-riðli.

Nora Mörk er hættulegasti sóknarmaður norska liðsins.vísir/getty
Aðeins fjórir mánuðir eru liðnir frá síðasta keppnisleik Noregs og Rússland en þann 20. ágúst síðastliðinn mættust liðin í undanúrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó.

Leikurinn var mögnuð skemmtun og úrslitin réðust ekki fyrr en undir lok framlengingar. Því miður fyrir Þóri og norsku stelpurnar höfðu Rússar betur, 38-37. Rússland varð svo Ólympíumeistari eftir 22-19 sigur á Frakklandi í úrslitaleiknum en Noregur tók bronsið eftir stórsigur á Hollandi í leiknum um 3. sætið.

Noregur og Rússland mættust einnig í undanúrslitum á HM 2009, á fyrsta stórmóti Þóris með norska liðið. Þar unnu Rússar nokkuð öruggan sigur, 28-20, og tryggðu sér í kjölfarið heimsmeistaratitilinn.

Liðin mættust svo í 1. umferð riðlakeppninnar á HM 2015 þar sem Rússar höfðu betur, 26-25. Tapið breytti þó litlu fyrir norsku stelpurnar sem stóðu uppi sem Evrópumeistarar.

Yevgeny Trefilov er ófeiminn við að láta sína leikmenn heyra það.vísir/getty
Norska liðið er ívið sigurstranglegra fyrir leikinn í kvöld. Það vann það rússneska í tveimur vináttulandsleikjum fyrir EM og hefur spilað betur á mótinu í Svíþjóð til þessa.

Yevgeny Trefilov, hinn skrautlegi þjálfari Rússlands, er ekki sáttur með spilamennsku síns liðs á EM og segir að liðið svífi enn á bleiku skýi eftir Ólympíuleikana.

„Enginn veit af hverju við urðu Ólympíumeistarar og enginn veit af hverju við töpuðum í dag,“ sagði Trefilov eftir tapið fyrir Rúmeníu í fyrradag.

„Ólympíuveislan stendur enn yfir. Leikmennirnir eru einfaldlega ekki tilbúnir fyrir EM, því miður,“ bætti Trefilov við.

Leikur Noregs og Rússlands hefst klukkan 19:45 í kvöld.


Tengdar fréttir

Þórir og stelpurnar byrja á sigri á EM

Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu til tveggja marka sigurs á Rúmeníu í kvöld, 23-21, í fyrsta leik liðsins á EM í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×