Handbolti

Þórey Rósa frábær þegar lið hennar vann toppliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir.
Þórey Rósa Stefánsdóttir. vísir/ernir
Íslenski landsliðshornamaðurinn Þórey Rósa Stefánsdóttir átti frábæran leik í kvöld þegar lið hennar Vipers Kristiansand vann tveggja marka sigur á útivelli á móti toppliði Larvik.

Þetta var gott kvöld fyrir íslensku landsliðskonurnar því Birna Berg Haraldsdóttir og félagar í

Glassverket svo gott sem tryggðu sér þriðja sætið með 30-24 heimasigri á Byåsen Elite.

Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði sjö mörk úr aðeins átta skotum í 32-30 sigri Vipers á Larvik og var markahæst í sínu liði ásamt Mörtu Tomac sem skorað sjö mörk úr tíu skotum.

Það var ljóst fyrir leikinn að Larvik-liðið er deildarmeistari og að Vipers Kristiansand fékk silfurverðlaunin. Larvik var fyrir leikinn búið að vinna alla átján deildarleiki sína á tímabilinu en þetta var tíundi deildarsigur Vipers-liðsins í röð.

Fyrsta mark Þóreyjar Rósu í leiknum kom Vipers-liðinu í 5-0 en hún skoraði fimm af fyrstu sextán mörkum síns liðs. Vipers var með fimm marka forystu í hálfleik, 20-15.

Þórey Rósa skoraði fyrsta mark Vipers-liðsins í seinni hálfleik og kom þá liðinu í 21-16 en sjöunda mark hennar kom liðnu í 29-25. Vipers hélt síðan út og fagnaði 32-30 sigri.

Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 3 mörk úr 12 skotum þegar Glassverket vann sex marka sigur á Byåsen Elite. Glassverket endaði sex leikja sigurgöngu Byåsen og náði tveggja stiga forystu á Byåsen í baráttunni um þriðja sæti deildarinnar en liðið voru jöfn að stigum fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×