Fótbolti

Aron Einar yngstur til að spila 70 landsleiki fyrir Ísland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar er kominn í 70 landsleiki.
Aron Einar er kominn í 70 landsleiki. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsisn í fótbolta, varð í gærkvöldi yngsti maðurinn til að spila 70 landsleiki fyrir A-landslið Íslands. Þetta kemur fram í úttekt Morgunblaðsins í dag.

Akureyringurinn spilaði allar 90 mínúturnar í Dyflinni í gærkvöldi þar sem mark Harðar Björgvins Magnússonar tryggði íslenska liðinu fyrsta sigurinn á Írum í sögunni.

Aron Einar var 27 ára og 340 daga gamall í gær þegar leikurinn fór fram en hann sló með þessu met Rúnars Kristinssonar sem var 29 ára og 39 daga gamall þegar hann spilaði 70. landsleikinn sinn árið 1998 á móti Rússlandi í undankeppni EM.

Aron Einar bætti því met Rúnars um 429 daga en þessir tveir eru þeir einu sem hafa náð 70 A-landsleikjum fyrir þrítugt. Alls hafa þrettán leikmenn spilað 70 leiki fyrir íslenska landsliðið.

Rúnar Kristinsson er einnig leikjahæsti leikmaður A-landsliðsins frá upphafi með 104 leiki en Aron Einar stefnir hraðbyri að því að taka það met af honum líka.

Aron Einar, Birkir Már Sævarsson og Eiður Smári Guðjohnsen eru einu leikmennirnir sem eru enn að í dag sem hafa spilað 70 landsleiki en Birkir Már spilaði sinn 70. á móti Kósóvó fyrir helgi og A-landsleik númer 71. á móti Írlandi í gærkvöldi.

Eiður Smári hefur spilað 88 landsleiki á ferlinum en hann hefur ekki verið í hópnum síðan á EM og er án liðs í dag.


Tengdar fréttir

Hörður tryggði fyrsta sigurinn

Glæsimark Harðar Björgvins Magnússonar tryggði Íslandi sigur á Írlandi í vináttulandsleik á Aviva-vellinum í Dublin í gær. Sigur Íslands var sanngjarn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×