Fótbolti

Myndbandsdómari kom mikið við sögu í sigri Spánverja á Frökkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Felix Zwayer, dómari leiksins, móttekur skilaboð frá myndbandsdómara.
Felix Zwayer, dómari leiksins, móttekur skilaboð frá myndbandsdómara. vísir/getty
Myndbandstækni var beitt til að leiðrétta tvær rangar ákvarðanir í vináttulandsleik Frakklands og Spánar í París í kvöld.

Antonie Griezmann kom Frökkum snemma í seinni hálfleik en myndbandsdómari dæmdi markið af vegna rangstöðu. Staðan var markalaus fram á 68. mínútu þegar David Silva skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu.

Níu mínútum síðar kom Gerard Deulofeu boltanum í netið en aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu. Myndbandsdómarinn sneri þeim dómi hins vegar við og markið fékk að standa. Lokatölur 0-2, Spáni í vil.

Fjölmargir aðrir vináttulandsleikir fóru fram í kvöld.

Króatar, sem eru næstu mótherjar Íslendinga í undankeppni HM, steinlágu fyrir Eistum í Tallin, 3-0.

Ítalir báru sigurorð af þjálfaralausum Hollendingum, 1-2. Holland komst yfir með sjálfsmarki Alessios Romagnoli á 10. mínútu en aðeins mínútu síðar jafnaði Éder metin.

Það var svo miðvörðurinn Leonardo Bonucci sem tryggði ítalska liðinu sigurinn þegar hann skoraði annað mark liðsins á 32. mínútu.

Svíar unnu flottan endurkomusigur á Portúgölum, 2-3, í Funchal, heimaborg Cristianos Ronaldo.

Ronaldo skoraði að sjálfsögðu eftir 18. mínútna leik og eftir rúman hálftíma skoraði Andreas Granqvist sjálfsmark.

Staðan var 0-2 í hálfleik en Svíar tryggðu sér sigurinn með þremur mörkum í seinni hálfleik. Sigurmarkið, sem kom í uppbótartíma, var sjálfsmark Joaos Cancelo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×