Fótbolti

Spila með brotin nef og brotna fætur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Smá vesen með nebbaling stoppar ekki Dusan Tadic.
Smá vesen með nebbaling stoppar ekki Dusan Tadic. vísir/getty
Dusan Tadic, leikmaður Southampton í ensku úrvalsdeildinni, er stoltur Serbi og segir að samherjar sínir í serbneska landsliðinu myndu spila fótbrotnir fyrir þjóð sína ef þess þyrfti.

Serbar eru í öðru sæti D-riðils í undankeppni HM 2018, tveimur stigum á eftir Írlandi og eiga næst leik á móti Georgíu á morgun.

Sjálfur spilaði Tadic nefbrotinn á móti Wales á síðasta ári eftir að Neil Taylor, leikmaður velska liðsins, sparkaði óvart í andlitið á honum í 1-1 jafntefli liðanna. Hann fékk mikið lof fyrir að halda áfram.

„Viðbrögðin voru virkilega skemmtileg þegar ég spilaði nefbrotinn. Þetta er hluti af því að vera Serbi. Við höfum ekki bestu aðstæðurnar eða allt til alls fyrir unga leikmenn. Það sem mönnum er kennt í Serbíu er að vera harður,“ segir Tadic í viðtali við Goal.com.

„Þegar ég var ungur kenndu þjálfararnir mínir mér að sama hvað gerist, hvort sem maður fótbrotnar eða eitthvað annað, verður maður að halda áfram að berjast fyrir sitt lið. Þetta er gott að hafa í fótbolta. Manni er kennt að vera nagli,“ segir Dusan Tadic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×