Fótbolti

Strákarnir upp um tvö sæti á heimslistanum: Konungar norðursins og miklu betri en Holland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir okkar eru tíu sætum fyrir ofan Holland.
Strákarnir okkar eru tíu sætum fyrir ofan Holland. vísir/getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta verður í 21. sæti á nýjum heimslista FIFA þegar hann verður gefinn út 6. apríl. Vefsíðan Football Rankings er búin að reikna út stöðuna eftir síðustu landsleikjaviku og er þetta staða strákanna okkar.

Ísland var í 23. sæti á listanum í mars en það féll þá niður um þrjú sæti eftir að ná 20. sæti í febrúar. Það var besta staða íslenska liðsins á heimslistanum frá upphafi en á þeim tímapunkti átti Ísland karla- og kvennalandslið sem voru á meðal þeirra 20 bestu í heiminum.

Á þeim tíma var Ísland á meðal átta fótboltastórvelda sem voru með karla- og kvennaliðin inn á topp 20 en hinar þjóðirnar voru og eru Brasilía, Þýskaland, Frakkland, Spánn, Sviss, England og Ítalía.

Heimir Hallgrímsson er aðeins búinn að tapa einum mótsleik síðan hann tók við einn.vísir/getty
Tíu sætum fyrir ofan Holland

Strákarnir okkar spiluðu tvo leiki í síðustu landsleikjaviku og unnu þá báða. Þeir unnu Kósóvó, 2-1, á útivelli í undankeppni HM 2018 og lögðu svo Írland í fyrsta sinn í Dyflinni, 1-0, með fallegu aukaspyrnumarki Harðar Björgvins Magnússonar.

Þrátt fyrir tvo sigra tapaði Ísland þremur stigum á listanum. Það kom samt ekki í veg fyrir að lærisveinar Heimis Hallgrímssonar færðust upp um tvö sæti þar sem svo mörg lið í kringum íslenska liðið töpuðu mun fleiri stigum.

Ísland er nú hvorki meira né minna en ellefu sætum fyrir ofan hollenska landsliðið en það mikla fótboltastórveldi fellur um ellefu sæti niður í 31. sæti. Holland hefur aldrei verið neðar á heimslistanum en neðst fór það í 26. sæti í júlí í fyrra.

Tvær Norðurlandaþjóðir; Danmörk og Noregur, eru líka í sinni verstu stöðu í sögunni. Danir falla um þrjú sæti niður í 51. sæti en versta staða þeirra var 50. sæti í fyrra.

Strákarnir eru áfram langbestir á Norðurlöndum.vísir/getty
Svíar sækja á

Norska liðið hans Lars Lagerbäck, sem tapaði í frumraun Svíans á móti Norður-Írlandi, fer niður um fimm sæti í 86. sætið. Það er versta staða liðsins í sögunni en lengst féll það niður í 84. sæti í nóvember á síðasta ári.

Sænska landsliðið tekur stærsta stökk allra á meðal 50 efstu þjóðanna en Svíarnir fara upp um ellefu sæti eftir sigra gegn Hvíta-Rússlandi og Portúgal í síðustu landsleikjaviku. Svíar eru áfram næstbestir á Norðurlöndum en þeir eru nú í 34. sæti, þrettán sætum á eftir konungum norðursins, strákunum okkar.

Eftir frábært gengi að undanförnu í undankeppni HM 2018 er Brasilía búin að endurheimta efsta sæti heimslistans en liðið hefur sætaskipti við Argentínu. Þýskaland er í þriðja sæti, Síle í fjórða og Kólumbía í fimmta sæti.

Króatíska landsliðið, sem Ísland mætir á Laugardalsvelli í júní, fer niður um tvö sæti í 18. sætið þrátt fyrir sigur á Úkraínu í síðustu leik liðsins í undankeppni HM 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×