Fótbolti

Þjálfarinn handtekinn eftir 12-0 tap á móti Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Barcelona er ekki grunað um neitt saknæmt en varalið félagsins spilaði umræddan leik.
Barcelona er ekki grunað um neitt saknæmt en varalið félagsins spilaði umræddan leik. Vísir/Getty
Ítalski þjálfarinn Filippo di Pierro var handtekinn eftir að lið hans tapaði 12-0 á móti b-liði Barcelona um helgina.

Filippo di Pierro stýrir liði Eldense sem féll úr spænsku C-deildinni eftir tapaði á móri varaliði Börsunga.

Ástæður handtökunnar voru grunur um að Filippo di Pierro hafi hagrætt úrslitum í leiknum. Leikmenn Barcelona-liðsins liggja ekki undir grun.  BBC segir frá.

Di Pierro tók við liði Eldense í janúar en það var ítalskt fjárfestingarfélag sem réði hann og umrætt félag hefur síðan náð meiri völdum innan klúbbsins.

12-0 tapið á móti Barcelona var metjöfnun á stærsta sigri liðs í spænsku C-deildinni. Daginn eftir tilkynnti félagið að það ætlaði ekki að spila fleiri leiki á tímabilinu en hefur síðan dregið þá yfirlýsingu til baka og ætlar nú að klára tímabilið.

Emmanuel Mendy, varnarmaður Eldense, hefur talað opinberlega um aðferðir ítalska þjálfarans en það gerði hann í útvarpsviðtali. Mendy sagði frá því að aðstoðarþjálfarinn Fran Ruiz hafi komið til hans.

„Hann spurði mig hvort ég væri með í þessu og hvað ég vildi fá mikið. Jafnframt sagði hann mér að ég myndi ekki spila leikinn nema ef ég væri með í þessu,“ sagði Emmanuel Mendy.

Aðstoðarþjálfarinn Fran Ruiz hefur sagt að skipanir til hans hafi komið að ofan.

„Þetta kom frá þjálfaranum. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég var á milli steins og sleggju. Ég sagði ekki eitt einasta orð á bekknum, gerði engar skiptingar og sendi engan að hita upp. Ég sagði síðan starfi mínu lausu eftir leikinn,“ sagði Fran Ruiz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×