Handbolti

Lærisveinar Alfreðs taka tveggja marka forskot til Barcelona

Alfreð á hliðarlínunni í leik með Kiel.
Alfreð á hliðarlínunni í leik með Kiel. Vísir/Getty
Kiel vann nauman tveggja marka sigur á Barcelona 28-26 í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta en sigurlið einvígisins fær þátttökurétt í Final-Four helginni í Köln.

Það var ljóst að verkefnið yrði gríðarlega erfitt fyrir strákana hans Alfreðs en þeir byrjuðu leikinn af krafti og náðu strax stjórn á honum. Breyttu þeir stöðunni úr 1-2 í 9-4 á stuttum kafla en Börsungar svöruðu með áhlaupi og var munurinn aðeins eitt mark í hálfleik, 16-15 fyrir Kiel.

Kiel var með frumkvæðið allan seinni hálfleikinn og náði þegar mest var fjögurra marka forskoti en gestirnir voru aldrei langt undan og náðu alltaf að minnka muninn á nýjan leik.

Fór svo að leiknum lauk með tveggja marka sigri Kiel sem þýðir að einvígið er enn galopið fyrir seinni leik liðanna í Barcelona um næstu helgi.

Marko Vujin fór á kostum í liði Kiel með tíu mörk í þrettán skotum en Niclas Ekberg bætti við sex mörkum fyrir heimaliðið. Í liði Barcelona dreifðist markaskorunin vel en Raul Entrerrios var markahæstur með fjögur mörk í sex skotum.

Fyrr í dag vann PSG þriggja marka sigur í Ungverjalandi gegn Szeged 30-27 en í gær unnu Veszprem og Vardar leiki sína í 8-liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×