Handbolti

Veszprem tekur þriggja marka forskot til Frakklands

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron í leik með Veszprém.
Aron í leik með Veszprém. vísir/epa
Aron Pálmarsson var markahæstur ásamt Andreas Nilsson í 26-23 sigri Veszprém á Montpellier í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta í fyrri leik liðanna sem lauk í Ungverjalandi rétt í þessu.

Veszprem sem hefur þurft að sætta sig við silfurverðlaunin í þessari keppni undanfarin tvö ár náði frumkvæðinu um miðbik fyrri hálfleiks og leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 13-10, Veszprem í vil.

Ungverska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af sama krafti og náði fimm marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þegar mest var fór munurinn upp í sex mörk þegar Veszprem komst 24-18 yfir.

Góður lokakafli Montpellier hleypti þeim aftur inn í einvígið en þeir lokuðu leiknum á 5-2 kafla og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk fyrir seinni leik liðanna á sunnudaginn eftir viku þar sem sigurvegarinn fær sæti í Final Four.

Aron var markahæstur ásamt Svíanum Andreas Nilsson með sex mörk í aðeins átta skotum en hann fékk eina tveggja mínútna brottvísun í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×