Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - KR 1-2 | Pálmi Rafn bjargaði KR

Kristinn Páll Teitsson í Ólafsvík skrifar
Óskar Örn og félagar fá að heyra það ef þeir tapa þessum leik.
Óskar Örn og félagar fá að heyra það ef þeir tapa þessum leik. vísir/stefán
KR getur þakkað Pálma Rafni Pálmasyni fyrir að liðið fékk öll stigin í Ólafsvík í kvöld en hann skoraði sigurmark KR alveg í blálokin.

Pape Mamadou Faye kom Ólsurum yfir í upphafi síðari hálfleiks með þrumufleyg utan teigs. Stefán Logi átti reyndar að verja en inn fór boltinn.

KR-ingar jöfnuðu aðeins níu mínútum síðar er Skúli Jón Friðgeirsson stangai sendingu Óskars Arnar Haukssonar í netið.

Uppbótartíminn var svo alveg að renna út er Húsvíkingurinn Pálmi Rafn kom KR til bjargar og skoraði markið mikilvæga.

Af hverju vann KR?

KR-ingar höfðu svo sannarlega heppnina með sér að hafa náð að skora sigurmark með síðustu spyrnu leiksins en Ólsarar náðu varla að taka miðju áður en Guðmundur Ársæll flautaði leikinn af.

KR-ingar voru vissulega sterkari aðilinn í leiknum eftir því sem líða tók á hann og voru með boltann stærstan hluta seinni hálfleiks en agaðir Víkingar gáfu fá færi á sér.

Bæði mörkin koma út frá föstum leikatriðum sem eru ódýr mörk að gefa en Ejub Puresevic getur verið ánægður með margt í leik sinna manna sem voru nálægt því að taka stig gegn meistaraefnum KR.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarlínan hjá Ólsurum stóð vakt sína vel og gaf fá færi frá sér en upp úr opnum leik áttu KR-ingar erfitt með að skapa sér færi. Eftir að liggja undir pressu í upphafi seinni hálfleiks hjálpuðu skiptingar Ólafsvíkinga við að róa leikinn niður.

Hjá KR var Skúli Jón Friðgeirsson manna öflugastur í vítateig andstæðinganna og skapaði usla í föstum leikatriðum ásamt því að halda sóknarmönnum Ólsara vel í skefjum.

Þá voru það Óskar Örn Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason sem stigu upp í seinni hálfleik og drógu KR yfir línuna þegar á reyndi. Pálmi skoraði auðvitað sigurmarkið en krækti í margar góðar aukaspyrnur þar að auki.

Hvað gekk illa?

Spilamennskan í fyrri hálfleik var hreint út sagt ekki upp á marga fiska. Liðin áttu í vandræðum með að fóta sig inn á vellinum og virtist fallega græni völlurinn örlítið of lítið sleginn til þess að boltinn gæti gengið betur manna á milli.

Hvað gerist næst?

Að hafa náð þremur stigum er gríðarlegur léttir fyrir Willum Þór Þórsson og hans menn í KR eftir tapið í Frostaskjóli í fyrstu umferð en það hefði verið áfall fyrir KR að vera aðeins með stig eftir tvær umferðir og skapað pressu á leikmenn liðsins.

Framundan er leikur gegn ÍA í Frostaskjólinu að viku liðinni fyrir KR sem liðið verður einfaldlega að vinna áður en taka við leikir gegn Val og FH.

Ólsarar eiga aftur á móti leiki framundan gegn Grindavík og ÍBV, liðum sem spáð var misjöfnu gengi í sumar og verða Ólsarar að nýta þessa leiki til að safna stigum í von um að halda sæti sínu í deild þeirra bestu.

Willum: Mikill léttir að brjóta ísinn

„Það hefði í raun ekki verið hægt að kvarta ef þessi leikur hefði endað með jafntefli eitt eitt, það var afar erfitt að brjóta þá niður í dag,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, feginn að leikslokum í kvöld.

„Þeir spiluðu mjög vel, voru agaðir og skynsamir og hættu aldrei. Þeir börðust alveg fram í lok leiksins og eru með flotta leikmenn sem geta refsað eins og þeir gerðu í upphafi seinni hálfleik,“ sagði Willum og bætti við:

„Við reyndum að vera þolinmóðari í seinni hálfleik og spila boltanum meira og þegar leið á leikinn kom þreyta í þá og við náðum að nýta okkur það.“

Þetta voru fyrstu stig KR í vetur

„Það er gríðarlegur léttir fyrir okkur alla að brjóta ísinn hér í Ólafsvík og taka þrjú stig, miðað við gang leiksins hefði eitt stig alveg verið vel þegið líka.“

Ejub: Mér líður illa

„Þetta var alveg grátlegt, manni líður hreint út sagt illa eftir þetta,“ sagði Ejub Puresevic, þjálfari Víkings frá Ólafsvík, svekktur að leikslokum í kvöld.

„Þetta var alveg ógeðslegt, algjört helvíti að fá þetta mark. KR-ingar eru með gott lið sem geta refsað svona og við misstum af færi til að hreinsa í sigurmarkinu.“

Ólsarar héldu vel skipulagi í kvöld og gáfu KR-ingum fá færi þrátt fyrir að fá á sig tvö mörk.

„Mér finnst spilamennskan mjög fín, við byrjum seinni hálfleik mjög vel og skorum kannski markið of snemma. Við fórum að bakka full mikið eftir markið, sérstaklega seinustu mínútur leiksins í stað þess að halda pressunni okkar.“

Ejub var skiljanlega gríðarlega svekktur að fá sigurmark hjá KR með einni af síðustu spyrnum leiksins.

„Það er bara bull að fá ekkert út úr þessum leik, við hefðum átt að taka boltann meira niður og reyna að halda honum á síðustu mínútunum en gerðum það ekki.“

Þrátt fyrir það sá hann jákvæða punkta.

„Varnarlega vorum við flottir í dag, KR-ingar skapa sér fá færi í leiknum en okkur gekk illa að ná uppi spili eftir að hafa unnið seinni boltana í leiknum.“

Pálmi: Kann ágætlega við mig hérna

„Tilfinningin var auðvitað bara æðisleg, jesús minn hvað við þurftum að berjast fyrir þessum stigum og það var yndislegt að skora sigurmarkið á síðustu sekúndunum,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason, hetja KR-inga í kvöld.

Pálmi hrósaði Ólsurum fyrir spilamennskuna í kvöld.

„Þeir voru helvíti flottir í þessum leik og við vorum lengi í gang. Við áttum í erfiðleikum með að spila okkar leik og brjóta þá niður en sem betur fer nýttum við tvö af færunum okkar í kvöld og það landar sigrinum.“

KR-ingar náðu strax að svara eftir að hafa lent undir.

„Við lentum í því að klikka á andlega hlutanum gegn Víkingum þegar við lentum undir og við vorum búnir að fara yfir það og vorum ákveðnir í að það gerðist ekki aftur.“

Pálmi á von á því að Ólsarar selji sig dýrt á heimavelli í sumar.

„Ég er alveg pottþéttur á því að lið eiga eftir að vera í vandræðum með að koma hingað og taka þrjú stig í sumar,“ sagði Pálmi sem skoraði sigurmarkið í Ólafsvík annað árið í röð.

„Ég kann ágætlega við mig hérna,“ sagði Pálmi léttur að lokum.

Víkingur Ólafsvík 4-2-3-1:  

Cristian Martinez Liberato 6 - Emir Dokara 7, Tomasz Luba 6, Mirza Mujcic 6, Agnacio Heras Anglada 6 - Gunnlaugur Hlynur Birgisson 7, Alonso Sanchez Gonzalez 6, - Alfreð Már Hjaltalín 6, Pape Mamadou Faye 7 (68. Egill Jónsson 6), Kenan Turudija 3, Guðmundur Steinn Hafsteinsson 6(78. Þorsteinn Már Ragnarsson).

KR:3-4-3

Stefán Logi Magnússon 5 - Skúli Jón Friðgeirsson 8, Indriði Sigurðsson 6, Gunnar Þór Gunnarsson 6 - Morten Beck 7, Finnur Orri Margeirsson 7, Pálmi Rafn Pálmason 7, Arnór Sveinn Aðalsteinsson 6 - Óskar Örn Hauksson 7, Kennie Chopart 6, Tobias Thomsen 4.



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira