Fótbolti

Uppselt á Króatíuleikinn

Strákarnir okkar fyrir leikinn í Laugardalnum í nóvember 2013.
Strákarnir okkar fyrir leikinn í Laugardalnum í nóvember 2013. Vísir/Daníel
Allir fjögur þúsund miðarnir sem í boði voru til kaupa á landsleik Íslands og Króatíu þann 13. júní í undankeppni HM 2018 í Rússlandi seldust upp í dag. Ljóst er að færri komast að en vilja.

Miðasala hófst klukkan 12 á Midi.is og var með því fyrirkomulagi að fólk skráði sig í röð og beið svo eftir því að röðin kom að þeim. Hver mátti kaupa að hámarki fjóra miða og hafði fimm mínútur til að athafna sig, velja sér sæti og þar fram eftir götunum.

Laugardalsvöllur tekur tæplega tíu þúsund manns í sæti. Áður en keppni hófst í undankeppninni setti KSÍ á sölu miða sem giltu á alla heimaleiki Íslands. Um tvö þúsund miðar seldust. Þá eiga Króatar rétt á tíu prósent miðanna, tveimur hólfum í norðurenda austurstúkunnar, tæplega eitt þúsund miðum.

Eftir standa tæplega þrjú þúsund miðar sem fara til samstarfsaðila KSÍ.

Þetta verður í fjórða skiptið á fjórum árum sem þjóðirnar mætast á knattspyrnuvellinum. Markalaust jafntefli varð í Laugardalnum í nóvember 2013 en Króatar hafa unnið báða leikina í Zagreb 2-0.

Króatar eru í efsta sæti I-riðils með 13 stig en Ísland í öðru sæti með 10 stig. Með sigri komast því Íslendingar upp að hlið Króata í toppsæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×