Íslenski boltinn

Böðvar er fyrsti Trabant Pepsi-deildarinnar í sumar: „Ég vona að hann hætti þessu bulli“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Magnússon og félagar í Pepsi-mörkunum ætla að bjóða upp á nýjan dagskrárlið í þættinum í sumar en þeir munu þá velja Trabant hverrar umferðar. Þetta kom í ljós í fyrsta Pepsi-markaþætti sumarsins í gærkvöldi.

„Það voru bílar framleiddir í Austur-Þýskalandi sem hætt var að framleiða árið 1990. Þeir voru á götum bæjarins í eina tíð og ég er að tala um Trabantinn góða,“ sagði Hörður Magnússon þegar hann kynnti þessi nýju „verðlaun“ Pepsi-markanna.

Böðvar Böðvarsson, leikmaður FH, fær Trabantinn í fyrstu umferðinni fyrir frammistöðu og framkomu sína í sigri FH á móti ÍA í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar.

„Hann fær Trabantinn fyrir sitt innlegg í þessa umferð,“ sagði Hörður Magnússon. Böðvar sást meðal annars ganga utan í höfuð Skagamannsins Þórðar Þorsteins Þórðarsonar eftir að hafa brotið á honum.  Hann braut líka ítrekað af sér eftir að hafa fengið gult spjald.

„Þetta er þyngra en tárum taki að drengurinn skuli haga sér svona. Það er búið að minna hann á þetta nokkrum sinnum að þroskast nú og hætta þessari vitleysu,“ sagði Logi Ólafsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson tók undir þetta.

„Ég bara vona að hann taki þetta til sín og hætti þessu bulli,“ sagði Óskar Hrafn.

Það má sjá innslagið um Trabantinn í Pepsi-mörkunum í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×