Körfubolti

LeBron James ætlar aftur að borga sekt liðsfélaga síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dahntay Jones og LeBron James.
Dahntay Jones og LeBron James. Vísir/Samsett/Getty
Annað árið í röð mun LeBron James koma liðsfélaga sínum til bjargar þegar kemur að því að greiða sekt frá aganefnd NBA-deildarinnar í körfubolta.

Dahntay Jones, aukaleikari í liði Cleveland Cavaliers, fékk tvær tæknivillur í lok fyrsta leiks liðsins við Toronto Raptors í undanúrslitum Austurdeildarinnar sem Cleveland vann 116-105.

Dahntay Jones var í framhaldinu rekinn út úr húsi en hann fékk báðar tæknivillurnar með sekúndu millibili eftir að hafa rifið kjaft við Norman Powell, leikmann Toronto Raptors.  ESPN segir frá.

Jones spilaði bara þrjár síðustu mínútur leiksins en tæknivillurnar dundu á honum þegar 18,7 sekúndur voru eftir og úrslitin löngu ráðin.

Dahntay Jones gæti fengið 3000 dollara sekt fyrir hvora tæknivillu fyrir framkomu sína sem eru samtals 640 þúsund krónur íslenskar. 6000 dollarar eru mikið fyrir leikmann sem fær bara 9127 dollara í laun í vetur.

Dahntay Jones skrifaði undir samning við Cleveland Cavaliers á síðasta degi deildarkeppninnar alveg eins og í fyrra.

LeBron James bauðst líka til að greiða sekt sem Dahntay Jones fékk í fyrra. Þá fékk fékk hann og sekt fyrir að slá leikmann Toronto Raptors á viðkvæman stað. James sagðist strax eftir leikinn ætla að greiða sektina sem var á endanum þó bara 80,17 dollarar.

NBA ákvað að sekt Dahntay Jones yrði aðeins 1/110 af launum hans en þau voru aðeins 8800 dollarar í fyrra.

„Ég sagði að ég myndi greiða sektina áður en ég vissi hver hún var. Upphæðin skiptir engu máli,“ sagði LeBron James.

„Ég sagði þó við hann eftir leikinn: Dahntay, nú er nóg komið. Hættu að láta reka þig út á móti Toronto. Þetta mun enda með því að ég hætti að borga fyrir þig sektirnar,“ sagði LeBron í léttum tón við blaðamenn.

LeBron James lifir það alveg af að borga sektir liðsfélaganna enda launahæsti leikmaður deildarinnar með 31 milljón dollara fyrir þetta tímabil en það gerir rúmlega 3,3 milljarða íslenskra króna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×