Íslenski boltinn

Arnari var boðinn nýr samningur áður en hann var rekinn: „Varla er framlengt ef menn eru ósáttir“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnari Grétarssyni, fyrrverandi þjálfara Breiðabliks, var boðinn nýr samningur hjá félaginu aðeins tveimur mánuðum áður en hann var rekinn.

Arnar var látinn taka pokann sinn á þriðjudaginn eftir töp í fyrstu tveimur leikjum Pepsi-deildarinnar. Hann hafnaði samningstilboðinu sem honum var boðið þar sem honum leist ekki á ákvæði í honum og ætlaði að skoða málin í haust með stjórnarmönnum Blika.

Þetta kemur fram í einkaviðtali við Arnar Grétarsson í þættinum 1á1 sem er á dagskrá klukkan 22.00 á Stöð 2 Sport HD í kvöld en brot úr þættinum má sjá hér að ofan.

„Það eru tveir mánuðir síðan, tveir eða þrír þetta er svo fljótt að líða, að ég sest niður með félaginu og ræði um að framlengja samninginn minn um tvö ár. Það var allt klappað og klárt,“ segir Arnar.

Sjá einnig:„Ég var í vandræðum í einkalífinu á síðasta ári“ og „Kannski er ég kjáni en ég trúði ekki að þetta væri að gerast“

„Svo vildu þeir breyta og setja inn í samninginn einhverja viðveru á skrifstofu í þrjá til fjóra tíma á dag. Á þeim tímapunkti áttaði ég mig ekki á hvort ég væri starfsmaður á skrifstofu eða þjálfari því ég hef líka verið að sinna aukaþjálfun á morgnanna og annað.“

„Þegar eitthvað hefur svo borið upp á hef ég verið á staðnum. Bara út af þessu var ég ekki tilbúinn að skrifa undir. Þetta var þá sett á ís því ég var með samning út árið,“ segir Arnar.

Í fréttatilkynningu Breiðabliks var talað um að úrslitin „undanfarin misseri“ væru ekki nógu góð en liðið endaði síðustu leiktíð mjög illa í Pepsi-deildinni og hafnaði í sjötta sæti.

„Þess vegna er skrítið þegar menn draga fram eitthvað frá síðasta tímabili. Ef menn eru eitthvað ósáttir er ekki verið að framlengja við manninn um tvö ár,“ segir Arnar Grétarsson.

1á1 er á dagskrá á Stöð 2 Sport HD klukkan 22.00 í kvöld, beint á eftir Teignum. Í kvöld verður einnig spjallað við Ólaf Jóhannesson, þjálfara Vals.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×