Íslenski boltinn

Eiður Aron á leið í Val

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Aron Sigurbjörnsson, leikmaður Kiel í þýsku 3. deildinni í fótbolta, er á leið í Val og mun spila með Hlíðarendafélaginu í Pepsi-deild karla í sumar. Eina óvissan er hvort hann komi fyrir lok félagaskiptaluggans á mánudaginn eða hvort hann hefji leik með Val í júlí þegar glugginn verður opnaður aftur.

Frá þessu greinir Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, í viðtali við Guðmund Benediktsson í þættinum 1á1 sem sýndur verður annað kvöld klukkan 22.00 á Stöð 2 Sport HD.

Eiður Aron hefur verið orðaður við Valsmenn undanfarnar vikur en þessi 27 ára gamli miðvörður er uppalinn hjá ÍBV og á að baki 101 leik í deild og bikar fyrir Eyjamenn.

„Við erum nánast búnir að fá einn leikmann í viðbót; Eið Aron sem er úti í Þýskalandi núna. Það eru 99,9 prósent líkur á að hann komi til okkar. Eina spurningin er bara hvort hann komi áður en glugginn lokar eða hvort hann komi í júlíglugganum. Öðrum leikmönnum erum við ekki að leitast eftir,“ segir Ólafur Jóhannesson.

Eiður Aron er miðvörður og fer væntanlega í baráttu um sæti í liðinu við þá Orra Sigurð Ómarsson og Rasmus Christiansen. Hann spilaði síðast í Pepsi-deildinni með ÍBV sumarið 2014 en hann hefur verið á mála hjá Örebro í Svíþjóð og Sandnes Ulf í Noregi sem atvinnumaður.

1á1 er á dagskrá á Stöð 2 Sport HD klukkan 22.00 annað kvöld, beint á eftir Teignum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×