Erlent

Ferðabann Trumps ekki samþykkt

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Donald Trump heldur á forsetatilskipun.
Donald Trump heldur á forsetatilskipun. Vísir/Getty
Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur ákveðið að tilskipun Trumps um ferðabann sem meinar íbúum sex múslimalanda inngöngu inn í Bandaríkin, muni ekki taka gildi. Með því staðfestir dómstólinn ákvörðun neðra dómstigs í Maryland. Reuters greinir frá.

Fram kemur í tilkynningu frá Roger Gregory, dómara við dómstólinn að ferðabannið ýti undir mismunun og því sé ekki tækt að það taki gildi. Gregory bendir á að tilskipunin hafi verið orðuð á ónákvæman hátt. Hún hafi falið í sér óljósa túlkun á þjóðaröryggi og að hatursorðræða hafi verið áberandi.

Gregory tekur jafnframt fram að miðað við kosningabaráttu Trumps, þar sem sagt var múslimar fengju ekki aðgengi inn í landið, þá væri hægt að skilja tilskipunina á þann hátt að „aðaltilgangur tilskipunarinnar væri að takmarka aðgengi fólks til Bandaríkjanna einungis á grundvelli trúarbragða,“ segir í tilkynningunni.

Ríkisstjórn Trumps hefur hins vegar bent á að orð hans í kosningabaráttunni ættu ekki að vera höfð til hliðsjónar þar sem hann hefði ekki verið búinn að taka við embætti. Dómstóllinn var hins vegar ekki sammála því og taldi að skoðanir Trumps á þeim tíma skiptu máli í ákvörðun sem þessari enda væri um að ræða kosningaloforð sem hann hefði ítrekað nefnt. Einnig er bent á að forsetinn hafi ekki einskorðað vald og geti því ekki tekið ákvarðanir sem þessa án afleiðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×