Íslenski boltinn

Sigurbjörn: Erum ekkert að spá í liðunum í kring

Sigurbjörn Hreiðarsson skrifar
Sigurbjörn og Ólafur Jóhannesson þjálfarar Vals.
Sigurbjörn og Ólafur Jóhannesson þjálfarar Vals. Vísir
Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Vals var ánægður með stigin þrjú sem hans menn náðu í með 2-0 sigrinum á KR en sagði að KR-ingarnir hefðu verið sterkari að mörgu leyti í kvöld.

„Þeir náttúrulega byrjuðu miklu betur og voru með þetta fyrstu 15-20 mínúturnar. Þeir lokuðu á okkur og við komumst þannig lagað ekki í neinn takt. Fyrsta markið er í raun í fyrsta sinn sem við förum innfyrir, keyrðum á þá og erum með vopn til þess,“ sagði Sigurbjörn við Vísi eftir leik en vopnið sem hann talar um er líklega löng innköst Arnars Sveins Geirssonar en fyrsta markið kom einmitt eftir eitt slíkt.

„Ógnin okkar í fyrri hálfleik var að nýta styrkleika okkar sóknarmanna, við gátum skorað nokkuð mörk. Þeir gátu auðvitað gert það líka en staðan var 2-0 hálfleik og við sættum okkur vel við það,“ bætti Sigurbjörn við.

„Við hefðum viljað vera einum gír ofar í baráttu og frumkvæði. Við stóðum það af okkur í byrjun en þeir náttúrulega gátu jafnað úr víti. Það var smá punktur í því og svo fáum við færi og nýtum eitt. 2-0 staða í hálfleik var mjög góð.“

„Við bökkum síðan aðeins líkt og í FH-leiknum en munurinn var sá að nú vorum við búnir að skora fleiri mörk. Mér fannst KR-ingarnir grimmir og í raun ofan á í mörgu í dag. En við unnum leikinn og tökum það,“ bætti Sigurbjörn við og var á því að báðir vítadómarnir hefðu verið hárréttir.

„Það eru bara fjórir leikir búnir og við búnir að spila þrjá leiki heima, við viljum vinna alla leiki hér. Það er krafa sem við setjum á okkur. Auðvitað viljum við vinna útileikina líka en hér ætlum við að vera sterkir og erum það. Núna er það bara stigasöfnun og maður er ekkert að spá í einhverjum liðum í kringum sig,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×