Enski boltinn

Forbes segir Man. United vera meira virði en Evrópumeistarar Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett
Manchester United er orðið verðmætasta fótboltafélag heims að mati hins virta viðskiptablaðs Forbes.

Forbes hefur nú gefið út árlegan lista sinn yfir verðmætustu félögin í fótboltanum og Manchester United komst að þessu sinni upp fyrir báða spænsku risana, Real Madrid og Barcelona.

Forbes metur verðmæti Manchester United á 3,69 milljarða dollara eða 363 milljarða íslenskra króna samkvæmt núverandi gengi.

Barcelona er í öðru sæti með verðmæti upp á 3,64 milljarða dollara (357 milljarðar) en Real Madrid fer nú alla leið niður í þriðja sæti eftir að vera „bara“ metið á 3,58 milljarða (351 milljarður).

Real Madrid vann Meistaradeildina annað árið í röð á dögunum og er einnig spænskur meistari. Real var búið að vera verðmætasta félag heims hjá Forbes undanfarin fjögur ár en á meðan virði spænska liðsins lækkaði um tvö prósent þá hækkaði verðmæti Manchester United um heil ellefu prósent sem er ekkert smáræði.

Sex ensk félög eru inn á topp tíu listanum en þar eru einnig Manchester City, Arsenal, Chelsea, Liverpool og Tottenham auk Manchester United.

Manchester City er hæst þeirra í fimmta sætinu en í fjórða sæti eru þýsku meistararnir í Bayern München.

Topplistinn yfir verðmætustu félög heims að mati Forbes:

1. Manchester United 3,69 milljarðar dollara

2. Barcelona 3,64 milljarðar dollara

3. Real Madrid 3,58 milljarðar dollara

4. Bayern Munich 2,71 milljarðar dollara

5. Manchester City 2,08 milljarðar dollara

6. Arsenal 1,93 milljarðar dollara

7. Chelsea 1,85 milljarðar dollara

8. Liverpool 1,49 milljarðar dollara

9. Juventus 1,26 milljarðar dollara

10. Tottenham 1,06 milljarðar dollara

11. Paris St-Germain 841 milljónir dollara

12. Borussia Dortmund 808 milljónir dollara

13. AC Milan 802 milljónir dollara

14. Atletico Madrid 732 milljónir dollara

15. West Ham 634 milljónir dollara

16. Schalke 04 629 milljónir dollara

17. Roma 569 milljónir dollara

18. Inter Milan 537 milljónir dollara

19. Leicester City 413 milljónir dollara

20. Napoli 379 milljónir dollara




Fleiri fréttir

Sjá meira


×