Íslenski boltinn

Bubalo kramdi hjörtu Leiknismanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fram er komið upp í 2. sæti deildarinnar.
Fram er komið upp í 2. sæti deildarinnar. vísir/hanna
Fram lyfti sér upp í 2. sæti Inkasso-deildarinnar með dramatískum 1-2 sigri á Leikni F. fyrir austan í dag.

Ivan Bubalo skoraði bæði mörk Fram, það síðara úr vítaspyrnu þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Bubalo hefur skorað í öllum fimm leikjum Fram í Inkasso-deildinni, alls sex mörk. Fjögur af þessum mörkum hafa verið skoruð á 80. mínútu eða síðar.

Bubalo kom Fram í 0-1 á 24. mínútu eftir að Robert Winogrodzki varði skot Simons Smidt út í teiginn. Jesus Guerrero Suarez jafnaði metin 11 mínútum síðar. Bubalo skoraði svo sigurmarkið á elleftu stundu eins og áður sagði.

Leiknismenn eru í tólfta og neðsta sæti deildarinnar með eitt stig.

Eftir rýra uppskeru í síðustu tveimur deildarleikjum vann Selfoss 1-0 sigur á HK á heimavelli í dag.

Selfyssingar eru í 4. sæti deildarinnar með 10 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Þróttar. HK-ingar eru hins vegar í 7. sætinu með sex stig.

Alfi Conteh Lacalle skoraði eina mark leiksins fjórum mínútum fyrir hálfleik. Þetta var fyrsta mark Lacalle í Inkasso-deildinni en hann er hins vegar kominn með sex mörk í Borgunarbikarnum.

HK sótti í sig veðrið í seinni hálfleik og fékk tækifæri til að jafna metin. Árni Arnarson komst næst því þegar hann skallaði boltann í slánna á 78. mínútu. En Selfyssingar héldu út og fögnuðu sínum þriðja deildarsigri í sumar.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×