Fótbolti

Jóhann Berg um heimavöllinn: "Veit ekki einu sinni hvenær við töpuðum síðast hérna“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jóhann Berg var frábær í kvöld.
Jóhann Berg var frábær í kvöld. Vísir/Eyþór
„Þetta var alveg gríðarlega mikilvægur leikur sérstaklega þar sem hin liðin sem við erum að keppa við unnu sína leiki í kvöld,“ segir Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður íslenska landsliðsins, eftir sigurinn á Króötum í undankeppni HM í kvöld.

Jóhann Berg fékk frábært færi rétt áður en Hörður Björgvin skoraði sigurmarkið undir blálok leiksins.

„Ef við hefðum ekki unnið þennan leik þá hefðum við dottið niður í fjórða sæti og því var þetta sérstaklega mikilvægt. Það var gríðarlega gott að sjá boltann í netinu þar sem ég hefði nú átt að skora svona tíu sekúndum áður, en við unnum leikinn og það er það eina sem skiptir máli.“

Hann segir að íslenska liðið hafi gjörsamlega verið með það króatíska í kvöld og sérstaklega í fyrri hálfleik.

„Uppleggið var í raun að liggja svolítið til baka en við fundum það í fyrri hálfleiknum að þeir voru frekar stressaðir á boltann og þegar við pressuðum voru þeir að gera feilsendingar. Við nýttum okkur það en auðvitað er það erfitt að halda uppi svona pressu í níutíu mínútur.“

Jóhann segir að hann hafi ekki upplifað eins og Króatarnir hafi verið áhugalausir í kvöld.

„Við sýndum frekar hversu góðir við erum. Það að vinna Króatíu hérna heima er rosalegt og ég veit ekki einu sinni hvenær við töpuðum síðast hérna og þeir eru á topp tíu á þessum ágæta heimslita.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×