Íslenski boltinn

Óli Stefán: Hefði þegið þetta stig fyrir leik

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur.
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur. vísir/ernir
„Ég held að ég verði að viðurkenna það, þetta var gríðarlega erfiður leikur og við þurftum að standa varnarleikinn ofboðslega vel til að halda í þetta stig,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga, aðspurður hvort þetta hefði verið erfiðasti leikur tímabilsins til þessa.

„Ég vill hrósa öllum leikmönnum liðsins fyrir varnarleikinn í kvöld, allt frá fremsta manni aftur til Jajalo í markinu. Í svona deild koma svona leikir sem þú þarft að standa í gegn um og þá ertu þakklátur fyrir það stig sem þú byrjar með,“ sagði Óli og bætti við:

„Ég get alveg sagt það að hefði mér verið boðið stig fyrir leik hefði ég tekið því, við vorum að mæta ótrúlega góðu liði í kvöld en náðum að loka vel á þá, sérstaklega fyrir framan vítateiginn okkar.“

Sjá einnig:Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Grindavík 0-0 | Markaþurrð í Kópavogi

Hann hrósaði Blikum fyrir spilamennskuna í kvöld.

„Ég verð að hrósa Blikaliðinu fyrir spilamennskuna í kvöld, þeir voru frábærir. Þótt að þeir hafi ekki opnað okkur upp almennilega á gátt þá voru þeir frábærir í dag og settu leikinn hárrétt upp,“ sagði Óli sem hafði ekki það sama að segja um sóknarleik sinna manna.

„Við náðum aldrei takti, við náðum varla að tengja sendingar á milli manna og fórum strax að leita að úrslitasendingunni í stað þess að halda boltanum betur. Þrátt fyrir það tel ég þrjú dauðafæri sem við fengum í dag en það hefði kannski verið ósanngjarnt að stela þessu þar.“

Andri Rúnar fór meiddur af velli stuttu fyrir leikslok.

„Hann var búinn að vera stífur í vikunni og fann fyrir það í hálfleik. Ég átti jafnvel von á því að hann myndi koma af velli í upphafi seinni hálfleiks en hann gaf okkur 80. mínútur og það af krafti. Hann fær núna tvær vikur til að jafna sig eins og aðrir leikmenn, þetta verður verðskulduð hvíld.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×