Skipstjórinn á hjólabátnum var 22 ára þegar slysið varð, hann var ekki með tilskilin réttindi og á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi ef hann verður dæmdur sekur fyrir manndráp af gáleysi.
Slysið gerðist fyrir tveimur árum á malarplani við Jökulsárlón. Kanadísk fjölskylda horfði á þyrlu lenda á svæðinu og sneru baki í hjólabátinn sem var að bakka eftir að hafa náð í farþega. Öll fjölskyldan féll við slysið en konan varð undir afturhjóli bátsins og lést samstundis. Í rannsóknarskýrslu samgönguslysa kemur fram að bakkbúnaður á bátnum hafi verið bilaður, skipstjórinn hafi átt litla möguleika á að sjá fólkið og að það hafi ekki heyrt í bátnum vegna hávaða í þyrlunni.
Sjá einnig: Réttindalaus á hjólabát bakkaði yfir ferðakonu
Um hálf milljón manna kemur á Jökulsárlón á ári hverju. Á malarsvæðinu við Jökulsárlón blandast því saman mikill fjöldi gangandi vegfarenda, en um hálf milljón manna kemur á svæðið á ári hverju, bíla- og rútuumferð, bátaumferð og eins og þennan dag fyrir tveimur árum, þyrluumferð.
Rannsóknarstjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að bæta þurfi skipulag á svæðinu, merkingar og afmarka það betur.
„Að mati RSS þar fað fara í öryggisframkvæmdir til að bæta öryggi á staðnum,“ segir Sævar Helgi Lárusson, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

„Þetta er ekki til eftirbreytni“
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segir að þetta sé mál sé þörf áminning um að nauðsynlegt sé að skoða bílastæðamál á fjölda ferðamannastaða.
„Auðvitað er ábyrgðin alltaf rekstraraðila á hverjum ferðamannastað en blönduð umferð, eins og þarna er, þetta er ekki gott,“ segir Þórólfur.
Hann segir að Samgöngustofa muni hvetja rekstraraðila til að gera úrbætur, þar sem það þarf. Hann telur að víða þurfi jafnvel að endurskoða deiliskipulög. „Þetta er ekki til eftirbreytni.“
Þórólfur bætir við að eftirlit Samgöngustofu verði hert. Hann segir að leyfishafinn, í svona málum, sé alltaf ábyrgur.