Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Var hraunað yfir þá nánast hvern einasta dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnlaugur er sáttur með hvernig hans menn brugðust við mótlæti í byrjun móts.
Gunnlaugur er sáttur með hvernig hans menn brugðust við mótlæti í byrjun móts. vísir/ernir
„Já og nei. Við áttum alveg færi til að klára þetta. En miðað við hvernig leikurinn byrjaði getur maður verið nokkuð sáttur með þetta,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, aðspurður hvort hann væri sáttur með eitt stig gegn Stjörnunni í dag.

Skagamenn áttu í miklum vandræðum í upphafi leiks og gátu talist heppnir að fá bara eitt mark á sig. En Gunnlaugur átti ás upp í erminni og þegar um 10 mínútur voru til hálfleiks breytti hann um leikkerfi og við það jafnaðist leikurinn.

„Við tókum bara ákvörðun um það í augnablikinu. Það vill svo til að við höfðum holninguna í það; vorum með miðvörð í hægri bakverði þannig að þetta svínvirkaði. Ég var undrandi hversu fljótt þetta bar árangur. Þeir lentu í miklum vandræðum með okkur,“ sagði Gunnlaugur.

Að hans sögn voru Skagamenn hvorki búnir að æfa þetta leikkerfi né spila það á undirbúningstímabilinu.

„Við vorum eitt af fáum liðum sem notuðum þetta ekki í vetur. Aftur á móti unnum við aðeins með þetta veturinn í fyrra og hitteðfyrra. Menn þekkja þetta og það voru allir með sitt á hreinu. Þetta gerði þeim erfitt fyrir. Við náðum loksins að dekka betur, betri tökum á köntunum og þetta var eiginlega maður á mann,“ sagði Gunnlaugur.

Eftir afar erfiða byrjun á tímabilinu hefur ÍA aðeins tapað einum af síðustu fimm deildarleikjum sínum. Gunnlaugur er ánægður með hvernig hans menn hafa risið upp á afturlappirnar eftir mikið mótlæti.

„Ég gríðarlega ánægður. Við erum á hárréttri leið. Strákarnir fá mikið hrós fyrir að halda haus. Þetta var ekkert smá erfið byrjun og í ofanálag er ekkert smá mikil umræða um deildina. Það var hraunað yfir þá nánast hvern einasta dag. Það er ofboðslega sterkt að halda haus og halda klefanum ferskum. Við þurfum bara að halda áfram,“ sagði Gunnlaugur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×