Íslenski boltinn

Þjálfaralausir Frammarar upp í 3. sætið | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fram er komið upp í 3. sæti Inkasso-deildarinnar en staða Gróttu er erfið.
Fram er komið upp í 3. sæti Inkasso-deildarinnar en staða Gróttu er erfið. vísir/ernir
Þjálfaralaust lið Fram vann 1-0 sigur á Gróttu í 8. umferð Inkasso-deildarinnar í fótbolta í kvöld.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Laugardalsvellinum í kvöld og tók myndirnar sem má sjá hér að neðan.

Mikið hefur gengið á hjá Fram að undanförnu en á mánudaginn var Ásmundi Arnarssyni sagt upp sem þjálfara liðsins. Eftirmaður hans er enn ófundinn.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 52. mínútu skallaði Dino Gavric aukaspyrnu Simons Smidt í netið og kom Fram yfir.

Þrátt fyrir ágætis færi beggja liða urðu mörkin ekki fleiri og Fram fagnaði sigri og þremur stigum.

Fram er í 3. sæti deildarinnar með 14 stig, tveimur stigum á eftir Fylki og Þrótti R. Grótta, sem hefur aðeins unnið einn leik í sumar, er í ellefta og næstneðsta sætinu með fimm stig.

Eftir fjóra tapleiki í röð vann HK 2-0 sigur á ÍR í Kórnum. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem HK heldur hreinu í sumar.

Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum í kvöld og komust yfir á 16. mínútu með marki Ásgeirs Marteinssonar.

Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka bætti Bjarni Gunnarsson öðru marki HK við og lokatölur því 2-0. Á lokamínútu leiksins fékk ÍR-ingurinn Styrmir Erlendsson að líta rauða spjaldið.

HK er í 8. sæti deildarinnar með níu stig en ÍR er tveimur sætum neðar með sjö stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.

vísir/ernir

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×