Fleiri flosverk ber fyrir augu, líka málaðar skissur og í hillum er ullarband í alls konar litum. Ég er í vinnustofu Sigrúnar Láru Shanko listakonu uppi í Gufunesi. Verk hennar hafa víða hlotið athygli og viðurkenningar á síðustu árum, nú síðast á ráðstefnu alþjóðasamtaka uppfinninga-og frumkvöðlakvenna í Bari á Ítalíu.

„Hugmyndirnar sæki ég meðal annars í norræna goðafræði og landið sjálft. Ég labbaði mikið um fjöll og firnindi þegar ég var ung og þarf ekki annað en loka augunum til að upplifa magnaðar myndir. Ég leita endalaust í þann sjóð, leik mér með andstæður, hita og kulda, kyrrð og ofsa,“ segir listakonan. Hún kveðst eingöngu nota íslenska ull frá Álafossi. „Ég vil hafa bæði tog og þel því togið eykur slitið og gerir áferðina kraftmeiri,“ útskýrir hún.

„Ég var að ljúka við mynd af Mælifellshnjúk í Skagafirði,“ útskýrir Sigrún Lára og kveðst nær eingöngu vinna eftir pöntunum. „Oft liggur mikil rannsóknarvinna á bak við svona verk, ég skoða ljósmyndir af fjöllum og landakort með hæðarlínum en svo taka verkin breytingum eftir að ég legg af stað. Ég nota skáldaleyfi til að ná karakter í þau.“
Haust og vor eru vinsælustu árstíðirnar því listakonan vill sjá fannir í landinu.
Sigrún Lára lærði flos sem unglingur. „Móðir mín, Hulda Þorgrímsdóttir, kenndi á flosnámskeiðum og ég var oft að aðstoða hana,“ rifjar hún upp. Útskurðarnámskeið sem hún fór á 19 ára segir hún líka hafa orðið sér að gagni á ferlinum. Hún var með silkivinnustofu á Skólavörðustígnum fyrir hrun. Svo sneri hún sér að flosinu og það hefur slegið í gegn á sýningum, meðal annars í London og Peking. „En ég hefði ekki komist svona langt hefði ég ekki notið styrkja frá hinu opinbera,“ segir hún.