Fox News hefur sætt gagnrýni fyrir að ganga langt í að verja Trump og gera lítið úr ásökunum og rannsókn á meintu samráði bandamanna Trump við rússneska útsendara í kosningabaráttunni í fyrra. Fjöldi sjónvarpsmanna Fox News hefur til dæmis sakað aðra fjölmiðla um að flytja gervifréttir og þjást af móðursýki vegna frétta af Rússatengslum.
Nýjustu fréttirnar af fundi Trump yngri kveiktu í fréttaþuli
Shepard Smith, fréttaþulur Fox News, er hins vegar ekki einn þeirra sem hefur afskrifað ásakanirnar eins og margir starfsbræður hans. Honum var ekki hlátur í huga þegar hann ræddi við Chris Wallace, samstarfsmann sinn, um nýjustu fréttirnar af umdeildum fundi syni Trump með Rússum í útsendingu í gær.
Greindi Smith frá því að að fleira fólk hafi verið á fundi Donalds Trump yngri með rússneskum lögmanni í New York í fyrra en hann hafði áður greint frá, þar á meðal bandarísk-rússneskur málafylgjumaður sem sagður er hafa tengsl við rússnesku leyniþjónustuna.
Að svo búnu hóf Smith reiðilestur um slæleg viðbrögð Trump og bandamanna hans við Rússahneykslinu. Ef málið væri allt eins ómerkilegt og þeir vildu láta í veðri vaka, hvers vegna væru þeir þá að ljúga endurtekið.
„Hvers vegna er lygi eftir lygi eftir lygi? Ef þú ert með hreina samvisku, komdu þá hreint fram, skilurðu?“ sagði Smith við Wallace.

Kallaði hann blekkingarleik Trump og félaga óskiljanlegan. Engu að síður væri enn til fólk sem teldi fréttamenn búa til fréttirnar af tengslum við Rússa.
„Einn daginn á það eftir að gera sér grein fyrir því að við erum ekki að því og segja: Hvar erum við og hvers vegna er verið að ljúga svona að okkur?“ sagði Smith ennfremur.
Wallace, sem sjálfur hefur varið aðra fjölmiðla eins og CNN og New York Times undan ásökunum um gervifréttir og að vera óvinir bandarísku þjóðarinnar, virtist orðlaus eftir þessa ákúru félaga síns.
„Ég veit ekki hvað segja skal,“ svaraði Wallace á endanum.
Í myndbandinu hér fyrir neðan má heyra reiðilestur Smith og viðbrögð Wallace.
Shep Smith: "The deception, Chris, is mind-boggling...why are we getting told all these lies?"
— Leanne Naramore (@LeanneNaramore) July 14, 2017
Chris Wallace: "I don't know what to say" pic.twitter.com/DQKOAC8a2o