Forsvarsmenn dómsmálanefndar öldungaþings Bandaríkjanna ætla að biðja Donald Trump yngri að bera vitni fyrir framan nefndina. Formaður nefndarinnar, Chuck Grassley, sagði blaðamönnum í dag að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump eldri, yrði einnig kallaður fyrir nefndina.
Tilefni yfirheyrslanna er fundur sem þeir tveir sóttu ásamt Jared Kushner, tengdasyni og ráðgjafa forseta Bandaríkjanna í júní í fyrra. Þar funduðu þeir með rússneskum lögfræðingi eftir að hafa fengið tölvupósta um að hún ætlaði að veita þeim skaðsamar upplýsingar um Hillary Clinton.
Sjá einnig: „Ég elska það“: Trump yngri birtir tölvupóstana
Enn fremur stóð í póstunum að upplýsingarnar og fundurinn væri liður í áætlun yfirvalda Rússlands að styðja við bakið á Trump í kosningunum. Trump yngri og lögfræðingurinn neita að slíkar upplýsingar hafi verið veittar á fundinum.
Trump tísti umræddum tölvupóstum í gær, þegar hann frétti að New York Times ætlaði að birta þá.
Trump yngri kallaður fyrir þingnefnd

Tengdar fréttir

Trump: Frábær stemning í Hvíta húsinu
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að andrúmsloftið í Hvíta húsinu sé frábært, þrátt fyrir að yfir standi umfangsmikil rannsókn á meintum afskiptum Rússa af kosningabaráttu Trump í fyrra.

Trump segir soninn opinn og saklausan
Bandaríkjaforseti segir son sinn verða fyrir barðinu á nornaveiðum. Trump yngri sagði föður sínum ekki frá fundi sem er sagður hluti af stuðningi Rússlandsstjórnar við framboð föður hans.