Íslenski boltinn

Arnþór Ari fékk ekki spjald fyrir „takka í pung“ | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikinn Arnþór Ari Atlason var mjög heppinn að fá ekki rautt spjald í jafntefli ÍBV og Breiðabliks út í Vestmanneyjum í Pepsi-deildinni um helgina.

Hörður Magnússon og félagar í Pepsi-mörkunum fóru yfir brot Arnþórs Ara í Pepsi-mörkunum í gær en flestir geta verið sammála um að þar hefði gula spjaldið átt að fara á loft.

Arnþór Ari kom þá með takkana á lofti og endaði með þá á mjög viðkvæmum stað hjá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni. „Rugltækling,“ sagði Hörður Magnússon.   Hann hefði þarna fengið sitt annað gula spjald í leiknum en slapp með skrekkinn.

Færeyingurinn Ransin N. Djurhuus dæmdi leikinn og Pepsi-mörkin veltu því fyrir sér hvort að hann hafi hreinlega ekki viljað reka Íslending af velli í þessum eina leik sínum í deildinni í sumar.

Samstarfsverkefni er á milli Íslands og Færeyja þar sem þjóðirnar skiptast á dómurum en Pepsi-mörkin vilja ekki sjá slíkt.  „Pepsi-deildin er ekki eitthvað tilraunastarf,“ sagði Hjörvar Hafliðason.

Það má sjá atvikið og umfjöllunina um það í Pepsi-mörkunum í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×