„Kynnið ykkur hvað Pershing, hershöfðingi Bandaríkjanna, gerði við hryðjuverkamenn sem voru gómaðir. Þar voru engin hryðjuverk íslamista í 35 ár!“ skrifaði forsetinn á Twitter.
Study what General Pershing of the United States did to terrorists when caught. There was no more Radical Islamic Terror for 35 years!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 17, 2017
Pershing, sem barðist gegn íslamistum í Filippseyjum í byrjun síðustu aldar er sagður hafa safnað saman 50 hryðjuverkamönnum. Þá á hann að hafa skipað mönnum sínum að skjóta 49 þeirra í höfuðið með byssukúlum sem búið var að dífa í svínablóð. Þessum eina sem ekki var skotinn á að hafa verið sagt að segja fólki sínu hvað gerðist.
Samkvæmt trúarsetningu múslima eru svín óhrein dýr og er múslimum alfarið meinað að borða kjöt þeirra. Samkvæmt sögusögnunum um Pershing átti þetta að koma í veg fyrir að hryðjuverkamennirnir kæmust til himnaríkis.
Vill hafa staðreyndir á hreinu
Sagnfræðingar og aðrir sérfræðingar segja þó að ekkert sé til í þessum sögusögnum um Pershing. Ýmsar útgáfur af sögunni hafa verið í dreifingu í Bandaríkjunum frá árásinni á Tvíburaturnana í New York 2001.
Í frétt BBC er bent á kaldhæðnina í því að Trump vísi til sögusagna sem hafi fyrir löngu verið afsannaðar í sömu viku og hann sagðist ekki tjá sig um hryðjuverk án þess að hafa kynnt sér allar staðreyndirnar. Þá var hann að tala um árásina í Charlottesville þar sem maður ók inn í hóp fólks um síðustu helgi. Ein kona dó og fjölmargir særðust.