Hægt er að segja að fyrri heilbrigðisfrumvörp repúblikana hafi dáið á skurðarborðinu þegar John McCain kaus gegn því helsta, á eftirminnilegan hátt.
Sjá einnig: Repúblikönum mistókst að koma Obamacare fyrir kattarnef.
Frumvarpið sem er nú til umræðu var samið af þeim Lindsey Graham og Bill Cassidy. Það felur í sér að veita einstökum ríkjum mikið frelsi um hvernig fjármunum frá alríkinu yrði varið. Þá myndi frumvarpið meðal annars fella niður tryggingakerfi sem gengur undir nafninu Medicaid og snýr að því að tryggja aldraða, fatlaða og fátæka.
Þar að auki myndi frumvarpið færa fjármuni frá þeim ríkjum sem notast frekar við Obamacare til ríkja sem notast lítið við kerfið. Í grunninn myndi frumvarpið taka peninga frá ríkjum þar sem demókratar eru við völd og færa þá til ríkja þar sem repúblikanar eru við völd.
Það er ein af helstu ástæðunum fyrir því að þingmaðurinn Rand Paul er á móti frumvarpinu.
„Ég held að þetta sé bara leikur þar sem repúblikanar taka peninga frá ríkjum demókrata. Hvað gerist ef demókratar komast svo til valda,“ sagði Paul.
Kjósa ekki fyrr en atkvæðin eru komin í hús
Mitch McConnell, leiðtogi meirihlutans, segir þó að atkvæðagreiðsla fari ekki fram fyrr en búið sé að tryggja þau 50 atkvæði sem til þarf. Færi atkvæðagreiðslan 50-50 myndi Mike Pence, varaforseti, ráða úrslitum. Hann hefur lýst yfir stuðningi við allar tilraunir til að fella niður Obamacare, samkvæmt frétt Washington Post.
Þegar flokknum mistókst að ganga frá Obamacare í júlí þótti það mjög vandræðalegt. Þingmenn flokksins og Donald Trump, forseti, hafa margsinnis lýst því yfir á undanförnum árum að nauðsynlegt væri að koma Obamacare fyrir kattarnef. Þá myndaðist ákveðin gjá á milli þingmanna og forsetans sem kenndi þingheiminum um hvernig fór.
Skapar mikla óvissu
Demókratar segja frumvarpið vera verra en fyrri tilraunir repúblikana til að fella niður Obamacare og hafa samtök lækna, sjúkrahúsa og sjúklinga nánast einróma lýst því yfir að þau séu á móti frumvarpinu og að það myndi leiða til þess að milljónir manna myndu missa sjúkratryggingar sínar.
Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar, segir hin sjálfstæða stofnun Congressional Budget Office, sem er nokkurs konar ríkisendurskoðun Bandaríkjanna, að ekki verði hægt að ljúka við mat á áhrifum frumvarpsins fyrir 30. september.
Því er ljóst að mikil óvissa fylgir frumvarpinu og segja demókratar að það væri óeðlilegt að kjósa um frumvarpið áður en matsgerðinni lýkur.