Íslenski boltinn

Heimir: Er ekki þannig gerður að ég muni stökkva frá borði þótt eitthvað bjóðist á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson hefði viljað ljúka þjálfaraferlinum hjá FH á annan hátt. Hann segir að það hafi verið afrek að tryggja liðinu Evrópusæti í sumar.

Heimir gerði tveggja ára samning við færeyska liðið HB á dögunum. Heimir var í viðtali hjá Herði Magnússyni í kvöldfréttum Stöðvar tvö þar sem hann gerði upp kveðjustund sína og FH-inga.

Það kom mörgum á óvart að Heimir skyldi semja við HB í Færeyjum en staða hans var þröng eftir að samningi hans hjá FH var sagt upp í byrjun október.

„HB er það lið sem hefur unnið flesta titla i Færeyjum eða 22 titla. Það er alltaf gerð krafa á árangur þarna og mér finnst gott að vinna í svoleiðis umhverfi,“ sagði Heimir.

Heimir útilokar að þjálfa á Íslandi næsta sumar. Hann gerði tveggja ára samning.

„Ég ræddi það við forráðamenn HB að ég myndi ekki fara að stökkva frá borði þó að það byðist eitthvað á Íslandi. Ég er ekki þannig gerður. Ég held að það sé miklu betra fyrir mig að klára þetta verkefni og sjá svo til hvað sé í boði eftir það,“ sagði Heimir.

Heimir segist að hafa viljað ljúka ferlinum á annan hátt hjá FH.

„Auðvitað hefði maður viljað eftir 17 ár að það hefði verið að ljúka þessu betur. Það gerðist ekki en ég lít bara fram á veginn. Ef ég ætlaði að fara að hugsa of mikið um þetta þá myndi ég bara kæfa sjálfan mig,“ sagði Heimir.

Hann segir ennfremur að það hafi verið afrek að ná Evrópusæti með FH í sumar.

 

„Á endanum tel ég það að það hafi verið þjálffræðilegt afrek að koma þessu liði inn í Evrópukeppnina. Miðað við það sem gekk á en núna tekur bara nýr þjálfari við og ég ætla að vona að FH gangi vel í framtíðinni,“ sagði Heimir.

Er erfitt á milli hans og formannsins Jóns Rúnars Halldórssonar

„Það er ekkert erfitt á milli en eins og ég sagði áðan þá hefði ég viljað að þetta hefði endað betur. Hann bara vinnur sína vinnu og ég vinn mína vinnu. Svo heldur bara lífið áfram,“ sagði Heimir.

Það má horfa á alla frétt Heimis í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×