

Bætt heilsugæsla – Brýn nauðsyn
Efling heilsugæslunnar, sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu eins og sést hefur í hverjum stjórnarsáttmálanum á fætur öðrum, gleður hjörtu heimilislækna. En nú er svo komið að ekki verður undan því vikist að horfast í augu við raunveruleikann. Verkefni bætast við og starfsstéttum fjölgar innan heilsugæslunnar, nú síðast með störfum sálfræðinga, sem vonandi eru komnir til að vera ein af grunnstoðum heilsugæslunnar auk heimilislækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Þó er það svo að flestir koma á heilsugæsluna til að leita sér lækninga og því óhjákvæmilegt að viðhalda mönnun og fjölga heimilislæknum.
Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins stendur: „Á tímabilinu 2007-16 jukust fjárframlög til hennar einungis um 3% að raunvirði þótt íbúum svæðisins fjölgaði um 11%. Á sama tíma jukust útgjöld vegna sérgreinalækninga um 57% að raunvirði vegna aukinnar þjónustu þeirra.“ Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur bent aðildarlöndum í Evrópu á að áhersla á annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, þ.e. sérhæfðari heilbrigðisþjónustu, sé of mikil miðað við áherslur á forvarnir og heilsugæslu. Meginrökin eru að bætt aðgengi almennings að fyrsta stigs þjónustu er mun hagkvæmara fyrir heilbrigðiskerfið í heild.
Eitt stærsta verkefni heimilislækna er eftirlit og meðferð langvinnra veikinda og fjölveikra einstaklinga. Þessi hópur fer stækkandi í okkar þjóðfélagi eins og í öllum hinum vestræna heimi þar sem bætt meðferð sjúkdóma hefur leitt til þess að fjöldi fólks lifir löngu og ágætu lífi eftir veikindi, en þarf á heilbrigðiskerfi að halda. Eftirlitið með langvinnum veikindum er heimilislæknum kært viðfangsefni en verkefnið krefst stöðugleika í mönnun. Þessu til viðbótar er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður fólks með áhyggjur af heilsu sinni og á landsbyggðinni sinna læknar allri bráðaþjónustu á sínu svæði.
Skipulag heilsugæslu byggir á því grundvallaratriði að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Auk þessa er mikilvægt að tryggja að einstaklingar sem lifa við heilsubrest geti leitað til læknis sem þekkir viðkomandi og vanda hans. Í dreifbýlu landi hefur verið vandasamt að koma til móts við kröfur um sérhæfða og örugga heilbrigðisþjónustu eins og fram hefur komið í tengslum við umræðu um fæðingar í heimahéruðum, en heilsugæslan á landsbyggðinni á einnig undir högg að sækja. Heimilislæknum á landsbyggðinni fækkar. Læknishéruð eru víða mönnuð afleysingalæknum sem er neyðarúrræði, þegar ekki bjóðast læknar til að setjast að í minni þéttbýliskjörnum.
Höfundar eru formaður og stjórnarmaður í Félagi íslenskra heimilislækna.
Áratugir eru síðan ákvarðanir voru teknar um æskilega mönnun á landsbyggðinni og margt hefur breyst. Umferð á vegum, ferðamenn og dreifing íbúa eru breytur sem núverandi mönnun tekur ekki tillit til. Þetta gamla mönnunarlíkan gerir ráð fyrir um 104 heimilislæknum á landsbyggðinni og eru um 71 af þeim stöðum setnar. Þeim störfum sem út af standa er sinnt af afleysingalæknum.
Hlutfall heimilislækna af öllum læknum í OECD-löndunum er um 29% á meðan hlutfallið er 16% á Íslandi. Enn nemur meirihluti íslenskra lækna í Háskóla Íslands og eru þar 1,32 stöður kennara í heimilislækningum, sem er í engu samræmi við þann fjölda lækna sem starfar við greinina. Sérnám í heimilislækningum, 5 ára nám og starf, hefur staðið til boða á Íslandi í nokkur ár. Nú stunda 38 læknar námið sem er fjármagnað að tæplega helmingi miðað við þann fjölda. Framvindan annar hvergi eftirspurn eftir nýliðun sem þyrfti að vera tvöfalt meiri, eða að lágmarki um 15 læknar á ári hverju. Um þriðjungur núverandi sérnámslækna í heimilislækningum hefur hugsað sér að starfa á landsbyggðinni.
Strax er þörf á raunhæfri áætlun um fjölgun heimilislækna með sókn í menntun og aðbúnaði og brýnt að stórauka veg heilsugæslunnar.
Heilsugæslan er fyrsta stigs grunnþjónusta og með löngu tímabærri og bráðnauðsynlegri styrkingu hennar nást mörg markmið í senn, betri þjónusta, betra heilsufar, bætt aðgengi um allt land, aukin velferð og um leið mun meiri hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu landsmönnum öllum til heilla. Gleðilega hátíð.
Skoðun

Það á að hafa afleiðingar að níðast á varnarlausu fólki
Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Börnin borga fyrir hagræðinguna í Kópavogi
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir skrifar

Hvernig er veðrið þarna uppi?
Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Að leita er að læra
Ragnar Sigurðsson skrifar

Vöxtur hugverkaiðnaðar á biðstofunni
Erla Tinna Stefánsdóttir,Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir skrifar

Viska: Sterkara stéttarfélag framtíðarinnar
Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir skrifar

Þetta er ekki raunverulegt réttlæti
Snorri Másson skrifar

Ábyrgð auglýsenda á íslenskri fjölmiðlun
Daníel Rúnarsson skrifar

Vofa illsku, vofa grimmdar
Haukur Már Haraldsson skrifar

Á að láta trúð ráða ferðinni?
Ingólfur Steinsson skrifar

Kópavogur forgangsraðar í þágu kennara, barna og skólastarfs
Ásdís Kristjánsdóttir skrifar

Ofþétting byggðar í Breiðholti?
Þorvaldur Daníelsson skrifar

Trans fólk er ekki að biðja um sérmeðferð
Eydís Ásbjörnsdóttir skrifar

Hvenær ber fullorðið fólk ábyrð?
Guðrún Ósk Þórudóttir skrifar

Hugsanaskekkja forsætiráðherra í Evrópumálum – Þetta eru tvö skref!
Ole Anton Bieltvedt skrifar

Opið bréf til ráðherranna Hönnu Katrínar og Ingu Sæland - blóðmeramálið
Árni Stefán Árnason skrifar

Vinnubrögð Carbfix eru ámælisverð
Ólafur Sigurðsson skrifar

Öllum til hagsbóta að bæta hag nýrra Íslendinga
Marta Wieczorek skrifar

Raunveruleg úrræði óskast takk!
Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

(Ó)merkilegir íbúar
Örn Smárason skrifar

Vangaveltur um ábyrgð og laun
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir skrifar

Gervigreind í daglegu lífi: 15 dæmi
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Til hvers að læra iðnnám?
Jakob Þór Möller skrifar

Komir þú á Grænlands grund
Gunnar Pálsson skrifar

Ólöglegir ópíóðar: Skaðaminnkandi þjónusta bráðnauðsynleg
Ósk Sigurðardóttir skrifar

Hlustum á náttúruna
Svandís Svavarsdóttir skrifar

Skattheimta sem markmið í sjálfu sér
Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Tæknin hjálpar lesblindum
Guðmundur S. Johnsen skrifar

Tryggja þarf aðkomu sjómanna að fiskveiðiráðgjöfinni
Sigurjón Þórðarson skrifar

Opið bréf til Friðriks Þórs
Steven Meyers,Guðrún Elsa Bragadóttir,Ása Helga Hjörleifsdóttir,Brúsi Ólason,Erlendur Sveinsson,Heather Millard skrifar