Viðskipti erlent

GoPro í bullandi vandræðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Nick Woodman, stofnandi og framkvæmdastjóri GoPro, kynnti nýjustu vörur fyrirtækisins í september í fyrra.
Nick Woodman, stofnandi og framkvæmdastjóri GoPro, kynnti nýjustu vörur fyrirtækisins í september í fyrra. Vísir/Getty
Forsvarsmenn fyrirtækisins GoPro Inc. ætla að segja upp fimmtungi starfsmanna sinna og hætta framleiðslu dróna, sem hafa ekki selst eins og væntingar stóðu til. Nick Woodman, stofnandi og framkvæmdastjóri GoPro, ætlar ekki að taka við bónusum fyrir síðasta ár. Það var tilkynnt í kjölfar birtingar ársfjórðungsuppgjörs sem stóð ekki undir væntingum fjárfesta.

Hlutabréf fyrirtækisins hafa misst um tuttugu prósent af virði sínu á síðustu tólf mánuðum. Samkvæmt frétt Bloomberg lækkuðu hlutabréf GoPro um allt að 33 prósent í dag. Það er stærsta lækkunin frá því fyrirtækið var sett á markað árið 2014.



Alls verður um 250 starfsmönnum sagt upp og er ekki reiknað með að GoPro muni skila hagnaði fyrr en á seinni helmingi þessa árs, samkvæmt frétt Forbes. Woodman, sem var hæst launaðasti framkvæmdastjóri Bandaríkjanna árið 2014, segist staðráðinn í að snúa rekstri fyrirtækisins við.



Illa hefur gengið að selja myndavélar og dróna GoPro á undanförnum árum. Önnur tæknifyrirtæki eru einnig farin að selja myndavélar eins og GoPro og tilraun fyrirtækisins með dróna gekk illa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×