Fótbolti

Borguðu 75 milljónir evra fyrir Zidane en hann er búinn að borga það allt til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane. Vísir/Getty
Kaupverð Real Madrid á Zinedine Zidane var heimsmet á sínum tíma en þessi fyrrum dýrasti knattspyrnumaður heims hefur borgað spænska félaginu það allt til baka og gott betur.

Fésbókarsíðan GiveMeSport vekur athygli á þessu í dag en þar hafa menn þar á bæ reiknað út hvað Real Madrid hefur unnið sér inn í verðlaunafé síðan að Zidane tók við sem þjálfari félagsins.

Real Madrid borgaði Juventus 75 milljónir evra fyrir Zidane árið 2001 og hann lék með félaginu í fimm ár eða til ársins 2006. Zidane skoraði 49 mörk í 225 leikjum í öllum keppnum með Real og vann sex titla.

Zidane tók síðan við sem þjálfari liðsins á þessum degi í janúar fyrir tveimur árum síðan. Frá þeim tíma hefur liðið unnið 72,4 prósent leikja sinna undir hans stjórn og á síðustu tveimur tímabilum hefur Real Madrid unnið átta titla.

Þessir átta titlar hafa skilað Real Madrid 83,7 milljónum evra í verðlaunafé eða mun meira en hann kostaði félagið á sínum tíma.





Zinedine Zidane varð síðasta vor fyrsti þjálfarinn til að vinna Meistaradeildina tvö ár í röð og eins og er þá er félagið handhafi fimm titla.

Real Madrid á möguleika á því að vinna Meistaradeildina þriðja árið í röð en það bendir aftur á móti fátt til þess að liðið verji spænska meistaratitilinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×