Skoðun

Borgarlína? Nei takk!

Guðmundur Edgarsson skrifar
Í umræðum undanfarna daga um almenningssamgöngur og borgarlínu er miður að enginn hafi varpað fram eftirfarandi lykilspurningu: Hvers vegna eru sveitarfélög að reka strætó? Er einhver ástæða fyrir því að ríki eða sveitarfélög reki strætó frekar en rútufyrirtæki, leigubíla eða flugfélög? Og hver er árangurinn?

Hann er slíkur, að einungis brotabrot af fólki kýs að nota strætó að staðaldri og bullandi tap hefur verið á rekstri hans um áratuga skeið. Sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hefur nefnilega ekki tekist betur til en svo, að í huga meginþorra fólks er strætó einhver stórtækasti tímaþjófur og óhentugasti fararskjóti nútímamannsins, sem um getur. Það blasir því við að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gefi rekstur strætó frá sér og leyfi markaðnum að spreyta sig, rétt eins og markaðnum hefur verið treyst fyrir ýmsum öðrum sviðum flutningsmiðlunar eða almenningssamgangna eins og skipaflutningum og flugsamgöngum.

Varla er flóknara að reka leiðakerfi Strætó en flutningsnet Eimskipa eða áætlanakerfi Icelandair?

Einkavæðum strætó

En hvaða form er skilvirkast á almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu? Úr því fæst ekki skorið nema með því losa Strætó undan klóm pólitíkusa og opna fyrir samkeppni á frjálsum markaði. Jafnframt á að lækka álögur á íbúana sem nemur taprekstrinum.

Miðstýrðar lausnir á borð við Borgarlínu ber að forðast enda enginn til að bera ábyrgð ef ævintýrið gengur ekki upp. Þannig á að hleypa Uber inn á leigubílamarkaðinn og leyfa öllum þeim sem hafa tilskilin ökuréttindi að reka strætóþjónustu. Samhliða ætti að dreifa byggð og umferð víðar um höfuðborgarsvæðið enda nóg landrými til staðar. Sömuleiðis er kominn tími til að bíleigendur fái þær samgöngubætur sem þeir hafa margfalt borgað fyrir með þar til gerðum sköttum og gjöldum í gegnum árin. Verði þessi bragarbót ekki gerð, munu íbúar Stór-Reykjavíkursvæðisins sitja fastir í umferðarteppu um ókomin ár á meðan hálftómir strætisvagnar keyra um á einkaakreinum um borgina þvera og endilanga með tugmilljarða tapi á ári hverju.

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×