Körfubolti

Logi spilar síðustu landsleikina sína í Höllinni á föstudag og sunnudag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson fagnar hér líklega sinni frægustu körfu á landsliðsferlinum en hann tryggði íslenska landsliðinu þá framlengingu á móti Tyrkjum.
Logi Gunnarsson fagnar hér líklega sinni frægustu körfu á landsliðsferlinum en hann tryggði íslenska landsliðinu þá framlengingu á móti Tyrkjum. Vísir/Valli
Logi Gunnarsson hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir leikina í undankeppni HM í körfubolta í þessari viku. Logi staðfestir þetta við Vísi.

Leikirnir við Finnland og Tékkland í Laugardalshöllinni verða landsleikir númer 146 og 147 á ferlinum en hann er fjórði leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi.

„Ég mun leggja landsliðsskóna á hilluna núna eftir þessa tvo leiki í vikunni. Ég hef verið í liðinu í næstum átján ár samfleytt og alltaf gefið kost á mér þó svo það hafi stundum ekki farið vel í félagsliðin mín þegar ég var erlendis. Þetta er orðinn langur tími og ég sáttur við að klára tvo leiki á heimavelli,“ sagði Logi við Vísi.

Logi lék sinn fyrsta landsleik á móti Noregi 1. ágúst 2000. Landsliðsferill hans telur því átján og hálft ár og leiki á móti 43 mismundandi þjóðum.

Logi hefur skorað 1.473 stig í 145 landsleikjum eða 10,2 stig að meðaltali í leik. Logi hefur skorað 209 þriggja stiga körfur fyrir íslenska landsliðið og er einn af þremur meðlimum í 200 þrista klúbbnum með þeim Teiti Örlygssyni og Guðjóni Skúlasyni.

Logi hefur líka leikið 26 landsleiki í Laugardalshöllinni eða fleiri en nokkur annar íslenskur körfuboltamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×