Skoðun

Fjárausturinn

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Eitt þúsund og tólf milljarðar króna. Það verða útgjöld ríkissjóðs árið 2023 samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Gangi áætlunin eftir munu ríkisútgjöld – að vaxtagjöldum undanskildum – aukast um tuttugu prósent að raungildi á næstu fimm árum.

Þeir sem trúa því að aukin eyðsla ríkisins skili sér sjálfkrafa í bættri opinberri þjónustu hljóta að fagna þessari metnaðarfullu áætlun. Útgjaldaþenslan sem þar er boðuð á sér enda enga hliðstæðu í íslenskri hagsögu. Hinir sem telja aukin útgjöld ekki markmið í sjálfu sér – heldur að þjónustan sem fæst fyrir peninginn sé sem best – ættu hins vegar að hafa áhyggjur af þróuninni.

Svo virðist sem í huga margra stjórnmálamanna sé eini mælikvarðinn á opinbera þjónustu hve miklum peningum er varið í hana. Að fullkomið línulegt samband sé á milli útgjalda og árangurs. Með slíkan mælikvarða að vopni er sífellt krafist hærri útgjalda. Því hærri því betra, ekki satt?

Það skýtur hins vegar skökku við að meta árangur í rekstri stofnunar eftir því hve mikla peninga reksturinn kostar en ekki hverju hann skilar. Fáar þjóðir verja til dæmis eins stórum hluta af sinni landsframleiðslu í menntamál og við. Engu að síður hefur náms­árangri íslenskra ungmenna hrakað og stöndum við illa í alþjóðlegum samanburði. Það sama á við um heilbrigðiskerfið. Erlendur samanburður sýnir að afar takmörkuð fylgni er á milli bættrar lýðheilsu og þess hvað heilbrigðisþjónustan kostar. Skipulag þjónustunnar – kerfið sjálft – skiptir mestu máli.

Þetta þýðir ekki að aukin útgjöld séu í öllum tilfellum slæm. En þau eru ekki markmið í sjálfu sér. Við hljótum að þurfa að spyrja okkur hvað við fáum fyrir milljarðana.




Skoðun

Sjá meira


×