Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að niðurstaða á úttekt sem Deloitte vann fyrir Háskóla Íslands benti til þess að styrktarsjóðir sem styrkja rannsóknir og vísindastarf á Íslandi væru ekki samkeppnisfærir við slíka sjóði í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum.

Dæmi var tekið af Eimskipasjóði Háskóla Íslands sem greiðir að jafnaði álíka mikið í fjármagnstekjuskatt og hann veitir í styrki.
Það er mat sérfræðings Deiloitte að væri skattaumhverfið hér sambærilegt við umhverfið úti gæti sjóðurinn úthlutað hér um bil tvöfalt meira fé í styrki.
Sjá einnig: Sér á báti í skattlagningu á styrktarsjóði
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, hefur síðan bent á að í mörgum ríkjum fái fyrirtæki eða einstaklingar, sem eru tilbúnir að setja fjármuni í styrki í háskóla eða rannsóknarstarfsemi, oft skattaafslátt á móti.
Bjarni Benediktsson vekur athygli á því í svari sínu að ýmsir þættir íslenska skattkerfisins verði teknir til endurskoðunar, eins og sjá megi í nýframkominni fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm árin.
„Ýmsir þættir íslenska skattkerfisins verða til endurskoðunar næstu árin, eins og sjá má í fjármálaáætluninni fyrir tímabilið 2019-2023, til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki (lögaðila). Þar verður meðal annars horft til þess að gera Ísland samkeppnishæfara í alþjóðlegum samanburði, auk þess að gera skattheimtu einfaldari, skilvirkari og sanngjarnari,“ segir í svari Bjarna. Þá segir hann að sérstökum starfshópi verði falið það verkefni að ráðast í endurskoðun á skattstofni fjármagnstekjuskatts.