Skoðun

Breyttir tímar

Haukur Örn Birgisson skrifar
Ég er bæði íhaldssamur og þrjóskur. Þegar ég hef fundið eitthvað sem mér líkar vel við, þá held ég um það heljartaki fram á síðustu stundu. Ég legg í sama bílastæðið, sit við sama enda fundarborðsins, panta mér sömu réttina af matseðlunum og þannig mætti lengi telja. Það má því segja að mér sé illa við breytingar.

Ég hef ásamt öðrum rekið fyrirtæki í sama húsnæðinu undanfarin tíu ár. Í dag rennur leigusamningurinn út. Með ævikvöld leigusamningsins í huga hef ég haft augun opin fyrir skrifstofuhúsnæði sem gæti hentað undir reksturinn. Ég hef haft augastað á einu tilteknu leigurými undanfarnar vikur og í huga mínum hafði ég tekið ákvörðun um að flytja þangað. Þegar samstarfsfólk mitt skaut að mér öðrum hugmyndum hummaði ég þær fram af mér – ég var búinn að finna eitthvað sem mér líkaði vel við.

Á allra síðustu metrum leigutímans togaði nánast einn samstarfsmaður minn mig með sér að skoða nýtt húsnæði sem hann hafði séð auglýst. Ég féllst á að fara með honum, gera honum til geðs. Þetta yrði í mesta lagi klukkustund úr mínu lífi, sem ég fengi ekki aftur. Þegar á staðinn var komið féll ég fyrir húsnæðinu og í dag flytjum við skrifstofuna okkar þangað.

Ég er mjög spenntur fyrir flutningunum og þeim nýju tímum sem breytingunum fylgja. Kannski eru breytingar ágætar eftir allt saman? Það hlýtur að minnsta kosti að vera betra að setja markið hátt og hitta ekki alltaf, heldur en að miða lágt og hitta. Ég er ánægður með breytingarnar en ég er fyrst og fremst ánægður með félaga minn, sem gafst ekki upp fyrir þrjóskunni í mér.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×